Rannsóknir

Áhrif einbeitingar, spennustigs og ytra umhverfis á viðbragðshraða hjá ungum íþróttamönnum

 

Helgi Rafn Guðmundsson

 

Tilgáta

Einbeiting, hjartsláttur, spennustig og ytra umhverfi getur haft áhrif á viðbragðshraða hjá ungum íþróttamönnum.

 

Tilraunin

Níu taekwondo iðkendur á aldrinum 10-16 (meðaltal 14.2) ára tóku þátt í tilrauninni. Allir voru þeir með frá rauðu að svörtu belti og með fjögura til níu ára reynslu í íþróttinni. Iðkendur áttu að framkvæma einfalt viðbragðspróf þar sem aðstoðarmaður heldur á reglustiku sem er 35 sentimeta löng við efri hluta handar og á milli vísifingurs og þumals iðkanda. Reglustikunni er haldið lóðrétt og lægsta talan er nær gólfi. Reglustikan er svo látin detta af handahófi og iðkandi þarf að grípa hana um leið. Aðstoðarmaður skráir hvar iðkandinn greip í reglustikuna og iðkandi tekur prófið tíu sinnum. Því lægri sem talan er því fljótari var iðkandinn að bregðast við og loka gripinu. Prófið var skráð í sentimetrum og stikan byrjaði við brún handar iðkanda við 0 á stikunni. Þetta próf var framkvæmt í þremur mismunandi aðstæðum sem er lýst hér í þeirri röð sem þeir framkvæmdu það.

 

 

Aðstæður 1 - 4x taflan

Iðkandinn þurfti að fara með fjórum sinnum töfluna, þ.e. telja: “fjórir, átta, tólf, sexstán…” og svo framvegis. Þegar iðkandi hafði gripið reglustikuna átti hann að halda áfram með talninguna þar sem frá var horfið. Prófið var framkvæmt tíu sinnum fyrir hvern iðkanda. Aðstæðurnar voru til að líkja eftir skort á einbeitingu við verkefnið sem var fyrir höndum.

 

Aðstæður 2 - Kjöraðstæður

Iðkandi tók prófið við kjöraðstæður þar sem engin truflun var fyrir hendi. Prófið var tekið tíu sinnum af hverjum iðkanda. Líkt var eftir aðstæðum þar sem iðkandi var lítið sem ekkert truflaður og því átti hann að geta einbeitt sér vel að verkefninu.

 

Aðstæður 3 - Glundroði

Iðkandi hafði eina mínútu til að koma eigin hjartslætti eins hátt og auðið var með spretthlaupi. Hávær rokktónlist hljómaði í salnum á meðan og iðkandi varð fyrir ytra áreiti af sjö aðstoðarmönnum sem framkvæmdu hávær hljóð og voru með truflandi nærveru. Eftir hlaupið fór iðkandinn rakleiðis til aðstoðarmanns og tók prófið. Aðstoðarmennirnir héldu áfram að vera með mikla truflandi hegðun en máttu þó ekki fara fyrir sjónlínu iðkandans og reglustikunar eða snerta hann. Reynt var að líkja eftir keppnisaðstæðum með miklu utanaðkomandi áreiti sem iðkandi gæti þurft að eiga við ásamt auknum hjartslætti og spennustigi.

 

Niðurstöður

Í aðstæðum 1(4x taflan) var meðaltal hópsins 22,01 sentimetrar. Í þessum aðstæðum náðu iðkendur langslökustu niðurstöðunum. Þess að auki þá gerðist það sex sinnum að iðkandi náði ekki að grípa reglustikuna. Það var skráð en hafði ekki tölfræðilegt vægi þar sem ekki var hægt að mæla hversu langt iðkandinn var frá því að ná að grípa reglustikuna.

 

Í aðstæðum 2 (kjöraðstæður) var meðaltal hópsins 14.98 sentimetrar. Í þessum aðstæðum náðu 6 af 9 sínum bestu tölum. Í þessum aðstæðum gerðist það einu sinni að iðkandi náði ekki að grípa reglustikuna.

 

Í aðstæðum 3 (glundroði) var meðaltal hósins 16.19 sentimetrar í þessum aðstæðum náðu 3 af 9 sínum bestu tölum.

 

Meðaltal hópsins var 46,9% betri við aðstæður 2 miðað við aðstæður 1.

Meðaltal hósins var 28,1% betri við aðstæður 2 miðað við aðstæður 3.

Hjá þeim sem náðu bestu niðurstöðunum sínum við aðstæður 3 voru þeir með 13.1% betri niðurstöðurþar  miðað við aðstæður 2.

 

 

 

Hugleiðingar

Við fyrstu aðstæður þurfa iðkendur að framvæma nokkuð einfalt verkefni á meðan prófinu stendur en það hefur samt sem áður mjög truflandi áhrif. Það að finna hvaða tala kemur næst hægði á viðbragðshraðanum þeirra. Enginn náði sínum bestu niðurstöðum við þessar aðstæður. Við kjöraðstæður var meðaltal hópsins það besta og munaði miklu á aðstæðum 1. og 2. Það var þó merkilegt að þrír af sex iðkendum fengu sínar bestu niðurstöður við aðstæður 3. Þær niðurstöður ásamt því að í aðstæðum 3. gekk þeim mun betur en í aðstæðum 1. gæti verið vegna þess að allir þessir iðkendur eru vanir því að þurfa að taka snöggar ákvarðanir við aðstæður sem eru líkar þessu prófi, mikil læti, ákefð, hátt spennustig og truflandi umhverfi. Þessi tilraun er mjög einföld í framkvæmd en það eru líka margir hnökrar á henni sem gætu skekkt niðurstöður. Til að fá nákvæmari niðurstöður er eflaust markvissara að hafa tímamældan viðbragðshraða í stað sentimetra. Einnig var sú mögulega breyta að þegar iðkandi náði ekki stikunni tekin í burtu þar sem hún hafði ekki beint tölulegt vægi. Iðkandi hefði t.d. kannski náð að grípa lengri stiku á 40 sentrimeta marki en þar sem stikan var ekki lengri en 35 sentrimetrar þá var ekki hægt að mæla það.

 

Af þessum niðurstöðum mætti draga eftirfarandi ályktanir:

1. Einbeiting skiptir miklu máli þegar kemur að viðbragðshraða. Ef athygli iðkandans er ekki á viðfangsefninu getur það haft neikvæð áhrif á viðbragðshraða.

2. Munurinn á kjöraðstæðum og keppnisaðstæðum er kannski ekki svo mikill og að æfa við keppnisastæður getur haft góð áhrif á viðbragðshraða við þær aðstæður.

3. Geta íþróttamanna til að ná árangri við hátt spennustig og / eða spennustig hvers íþróttamanns og hans geta til að meðhöndla truflandi aðstæður geta haft áhrif á viðbragðshraða.