Taekwondo er ævaforn kóresk bardagalist sem á rætur sínar að rekja til hernaðarlista sem stundaðar voru á Kóreuskaganum fyrir 2000 árum.
Taekwondo hefur þróast mjög mikið og hratt, sér í lagi síðustu áratugi og er í dag talað um tvenns konar taekwondo; Ólympískt, og hefðbundið.Á Íslandi eru báðar tegundir taekwondo æfðar samhliða. Það er misjafnt eftir tímabilum og félögum hvort er æft meira.
Hefðbundið taekwondo
Hefðbundið taekwondo er bardagalist þar sem ýmsir hlutir eru iðkaðir til eflingu líkama og sálar. Þar er æft sjálfsvörn, tækni, form, brot, bardaga af öllum gerðum, hugleiðingu og alls kyns æfingar til að styrkja og auka fimi og liðleika einstaklinga.
Ólympískt taekwondo (sport taekwondo)
Ólympískt taekwondo er mun nýrri og er eins og nafnið gefur til kynna, íþrótt þar sem markmiðið er að skora stig og vinna bardaga. Tveir andstæðingar, varðir með hlífum, keppa við hvorn annan og reyna að skora stig með því að sparka eða kýla í brynju anstæðings eða sparka í hjálm andstæðingsins. Þessi hluti taekwondo er með mun færri árásar- og varnaraðferðir, og telst vera keppnisíþrótt.
Agi
Taekwondo byggist að miklu leyti upp á aga og virðingu. Allir sem iðka taekwondo þurfa að fara eftir ýmsum hegðunar og agareglum. Í taekwondo er lögð mikil áheyrsla á sjálfsvirðingu og virðingu fyrir öðru fólki.
Ávinningur
Ávinningur með taekwondo iðkun er augljós af þeim sem íþróttina stunda. Aukin liðleiki og fimi, stykur, sjálfstraust, metnaður og félagsleg hæfni eru meðal þess sem flestir sem æfa taekwondo af alvöru hafa bætt sig í eftir að hafa æft taekwondo í nokkurn tíma.
Fyrir hverja er taekwondo?
Taekwondo er eitthvað sem allir með áhuga ættu að geta stundað. Ef iðkendur geta farið eftir fyrirmælum og unnið með hópnum þá ættu þeir að geta æft taekwondo. Taekwondo er ekki einungis bardagi og sjálfsvörn heldur lífstíll og hugsun. Með réttu hugarfari er hægt að gera nánast hvað sem er og er það víðamikill þáttur í taekwondo. ,,Ég get'' hugarfarið er ríkjandi í taekwondo og mikið lagt uppúr því að trúa á sjálfa/n sig. Taekwondo æfingar liðka og styrkja líkamann, en það er mjög mikilvægt, óháð aldri, getu eða þyngd en allar æfingar miðast við að hægt sé að gera þær á sínum hraða ef viðkomandi þarf á því að halda, sérstaklega þegar um byrjendur er að ræða. Þrátt fyrir það getur fólk á besta aldri, í fantaformi fengið mjög góðar og erfiðar æfingar. Stelpur og strákar, aldnir sem ungir geta æft og lýsir það sér vel í víðri flóru iðkenda hjá taekwondo deild Keflavíkur. Fólk á öllum aldri og getustigum æfir hjá félaginu og gengur mjög vel.
Skoðaðu æfingatöfluna okkar eða hafðu sambandi við kennara og komdu og prófaðu.