Í taekwondo keppni og æfingum er nauðsynlegt að nota ákveðnar hlífar til að koma í veg fyrir meiðsli. Samkvæmt reglum World Taekwondo Federation (WTF) skulu eingöngu notaðar viðurkenndar hlífar. Á Íslandi er ekki ávallt farið eftir því og iðkendur bera því sjálfir ábyrgð á því hvort þeir noti viðurkenndar hlífar eður ei. Viðurkenndar hlífar eru þær sem eru merktar með WTF eða ETU stimpli. ATH að hlífar eru viðurkenndar í ákveðinn tíma í einu og því gæti hlífar sem voru áður viðurkenndar verið dottnar úr gildi. Fyrir nánari upplýsingar um það skal hafa samband við Taekwondo samband Íslands - www.tki.is
WTF - ETU -
Eftirfarandi hlífar eru skylda.
Brynjur
Brynjan er bæði hlíf og skorsvæði í taekwondo keppni. Keppendur verða að klæðast þessari brynju til að mega taka þátt í keppninni. Félagið eða mótshaldari útvegar oftast brynju fyrir keppendur og því er ekki nauðsynlegt að iðkendur eigi brynju. Keppendur eru ýmist í brynju með rauðum eða bláum lit. Hlið brynju skal vera rétt við eða fyrir ofan mjöðm að neðan og aðeins neðar en handakriki að ofan. Framhlið brynju er við lífbein að neðan og yfir brjóstkassa að ofan. Brynjan skal vera smá hreyfanleg þegar hún hefur verið bundin, þ.e. ekki binda hana of þétt að líkama.
Hjálmur
Hjálmur ver iðkendur að hluta í höfuðhöggum og er skorsvæði í keppni hjá fullorðnum. Börn mega yfirleitt ekki sparka í höfuð í keppni á Íslandi en þurfa samt sem áður að vera með hjálm. Félagið eða mótshaldari útvegar oftast hjálm fyrir keppendur. Hjálmur skal passa þæginlega með festingu undir höku. Hjálmur skal ekki vera það laus að hann snúist þegar ýtt er á hann og hann skal heldur ekki vera þröngur.
Tannhllíf
Tannhlíf er til að verja tennur og kjálka í höfuðhöggum. Tannhlíf er skylda í fullorðinsflokkum og stundum einnig í barnaflokkum. Hver og einn þarf að eiga sína eigin hlíf þar sem tannhlífar eru mótaðar eftir tönnum iðkandans. Tannhlíf er ein mikilvægasta hlífin í taekwondo og öðrum bardagaíþróttum. Samkvæmt reglum WTF skulu tannhlífar í keppnum vera hvítar eða glærar og WTF stimplar ekki tannhlífar. Hér má sjá hvernig á að móta tannhlíf - http://www.youtube.com/watch?v=nb5WeNN4IZc
Framhandleggshlífar
Framhandleggshlífar verja framhandleggi og eru mikilvægar þegar varnir eru framkvæmdar. Hlífin skal ná yfir bæði bein framhandleggs en sér í lagi þeim megin sem litli fingur er. Hlífin skal vera fyrir innan úlnlið og olnboga og ekki skerða hreyfingu. Hlífin skal vera þétt á handleggnum án þess að valda óþægindum. Á æfingum er notað tvö pör af handahlífum og annað parið sett yfir olnboga til að vera fætur æfingafélaga ef þeir skyldu sparka í olnboga.
Hanskar
Hanskar verja hendur, úlniði og fingur. Hanskar skulu vera þétt að höndinni en þó þannig að hægt sé að kreppa hnefann. Þrátt fyrir hanskana þarf að passa fingurnar með því að hafa hendurnar krepptar í bardaga.
Sköflungshlífar
Sköflungshlífar eru mjög mikilvægar í taekwondo þar sem mikið er sparkað. Hlífin skal vera fyrir innan ökkla og hné, þ.e. ekki ná yfir ökkla og hné. Hlífin skal vera þétt án þess að valda óþægindum eða skerða hreyfingu.
Klofhlíf
Klofhlíf ver kynfæri og nára. Hlífin skal falla að mjaðmasvæðinu án þess að valda óþægindum eða skerða hreyfingu.
Þegar keppt er með rafbrynjur þarf að vera með rafristarhlífar (táslur). Þessar hlífar eru með skynjurum inní til að geta skorað stig á brynjurnar.
Þegar keppt er með rafhjálma þarf að auki að vera með hælsokka þar sem auka skynjari er þar. Þessa skynjara má ekki nota ef það er ekki notaðir rafhjálmar.
Aðrar hlífar sem eru ekki skylda í keppni en gott að eiga og nota á æfingum:
Sköflunga og ristahlífar
Ristarhlífar
Olnbogahlífar