Belti og gráðanir

Í taekwondo er notast við beltakerfi sem sýnir reynslu og iðkun nemenda. Í taekwondo er talað um beltagráður og eru 10 gráður litaðra belta. Á kóresku kallast þau geup.Einnig eru til svartbeltisgráður og kallast þær dan gráður. Beltagráðanir í taekwondo eru til að prófa kunnáttu og getu nemenda. Tími á milli gráðana er einstaklingsbundinn og fer eftir kunnáttu, getu, mætingu og viðhorfi hvers og eins. 

 Kunnátta : Þekking á tækninni sem ætlast er til miðað við beltakröfur.

Geta: Að tæknin sé framkvæmd með viðeigandi hreyfingu, krafti, hraða, nákvæmni, tímasetningu og líkamsstöðu. Það er ekki nóg að þekkja til tækninnar heldur þarf hún að vera framkvæmd rétt og vel þegar þess er krafist.

Mæting: Að lágmarki skuluð iðkendur mæta á 20 æfingar á milli gráðanna frá hvítu belti - grænu og 50 æfingar eftir það. Í langflestum tilfellum hafa og skulu iðkendur hafa mætt á mun fleiri æfingar en lágmark krefur.

Viðhorf : Hegðun og viðhorf til taekwondo, æfinga og umhverfisins hefur áhrif á hvort iðkendur fái nýja gráðu. Það er ekki nóg að geta gert tæknina með lágmarksfyrirhöfn, heldur þarf líka að sýna aga, ákveðni og hjálpsemi.

Símat fer fram allt árið um kring og a.m.k. 1x í mánuði er endurmetið iðkendur. 

Viðhorf - farið yfir viðhorfslistann og iðkendur metnir.
Brot - ef viðkomandi hefur sýnt fram á að geta gert viðeigandi brot m.v. beltakröfur. 
Spörk - geta og kunnátta í spörkum, gefin er einkunn.
Högg, varnir og stöður - gefin einkunn.
Bardagi - gefin einkunn.
Sjálfsvörn - gefin einkunn.
Orðaforði - gefin einkunn.
Annað - , önnur færni, verkefni, sjá beltakröfur.

Gráðun getur átt sér stað hvenær og hvar sem er.

Fyrir gráðanir er mikilvægt að fara yfir tækniatriðin sín og kunna orðin. Orðalistinn og kröfur auðvelda heimalærdóminn.

Próftakar skulu vera í dobok (taekwondo galla). 

10. geup-gul rönd á hvítu belti
9. geup-Gult belt
8. geup-Appelsínugult belti
7. geup-grænt belti
6. geup-blátt belti
5. geup-rauð rönd á bláu belti
4. geup-rautt belti
3. geup-svört rönd á rauðu belti
2. geup-2 svartar rendur á rauðu belti
1. geup-3 svartar rendur á rauðu belti
1. dan-svart belti
2. dan svart belti
3. dan svart belti
4. dan svart belti (meistaragráða)
 osfv.-9.dan, sem er hæðsta beltagráðan. (10 dan er til, en eingungis sem heiðursgráða)

Nánari upplýsingar um gráðanir fást í beltakröfum og hjá kennara.

Þjóðsögur um beltaltina

 

Margar sögur og hugmyndir eru til um hvers vegna notast er við mismunandi beltaliti í taekwondo sem og öðrum bardagalistum.

 

Ein saga segir að þegar bardagakappar til forna æfðu þá voru þeir klæddir hefðbundnum göllum (kimono eða dobok) með hvítt belti utanum sig. Þegar þeir voru búnir að æfa þá þrifu þeir fötin sín en aldrei beltin. Það þótti flott að vera með belti sem var grænt af grasinu, rautt af blóði eða brúnt af mold. Eftir því sem bardagakapparnir æfðu og börðust meira, því litaðra varð beltið. Á endanum átti beltið svo að vera svo skítugt að það varð svart. Það var því hægt að sjá hver hafði æft mikið og hafði þar af leiðandi mikla reynslu. Margir skólar og bardgalistastílar vilja enn meina að það að þrífa beltið sitt sé bannað því að það “þurrki út” reynslu iðkenda. Þessi saga er eflaust ekki sönn en gefur fólki sjónræna ímynd um hvernig “æfingin skapi meistarann.”

 

Önnur saga segir að táknræn merking sé á bakvið hvern beltalit. Hvíta beltið tákni hreinleika og tómt blað. Gula beltið táknar sólina og græna beltið táknar græna jörð sem dafnar eftir að sólin skín. Bláa beltið táknar himininn og rauða beltið eld og ákveðni. Svarta beltið táknar auðmýkt og styrk.

 

Aðrar sögur segja að beltalitirnir tákni árið, sumar, vetur vor og haust á meðan hvítur og svartur tákni dag og nótt.

 

Einnig eru til margar sögur um hvaðan beltakerfin í bardagalistum koma. Margir segja að Jigoro Kano, upphafsmaður Judo hafi byrjað með beltakerfi í bardagaíþróttum. Sumir vilja þó meina að það hafi verið notað löngu fyrr hjá japönskum og kínverskum hermönnum til að auðgreina stöðu þeirra og getu.

Þar sem heimildum ber ekki saman og erfitt er að komast að hinu sanna getum við bara getið um hvaðan beltin koma. Til eru þúsundir stílar af bardagalistum og því ómögulegt að segja hver þeirra sé sá fyrsti. Í dag þekkjum við þó beltakerfið eins og sagt er frá í þessum sögum, það er til að viðurkenna þá sem hafa færni og reynslu í sinni list.