Hvað æfum við og af hverju?
Margir þættir eru æfðir í taekwondo. Misjafnt er hvernig fólk skiptir taekwondo í flokka en hér verða helstu þættir nefndir. Taka skal fram að þetta er á engan hátt tæmandi listi yfir hvað er kennt né hvernig það er gert.
Tækni – viðbragð – hraði
- Fyrst æfum við tæknina(hreyfinguna).Það er gífurlega mikilvægt að tæknin sé rétt, sama hvað viðfangsefnið er. Rétt tækni tryggir bestan árangur, mestan kraft, mestu vörnina, minni líkur á meiðslum og svo mætti lengi telja.
- Næst er æft viðbragð (tímasetningu). Það er tilgangslaust að æfa spörk, varnir, lása osfv. ef nemandinn getur ekki gert tæknina á réttum tíma. Viðbragð er svörun líkamans og hreyfingin sem henni fylgir. Viðbragð á ekki eingöngu við í bardaga heldur í öllum almennum æfingum. Hvernig líkaminn bregst við álaginu og hvernig við viljum að hann bregðist við.
- Síðan er æft hraða og kraft. Rétt hreyfing á réttum tíma skilar litlu ef hraðinn og krafturinn er lítill. Hraði og kraftur er oft æft saman, en það fer eftir æfingunni. Sama hvort eð er þá er hraðinn og krafturinn æft eftir tækni og viðbragð.
Þetta kerfi tryggir sem bestan árangur. Misjafnt er hversu mikið skrefin eru æfð. Til að mynda æfa yngri nemendur meira af 1 og 2. Sama hvort um er að ræða bardaga, form, brot, grunntækni eða líkamlegar æfingar þá er þetta kerfi haft að leiðarljósi.
Bardagi
Til að teljast til bardagalista/bardagaíþrótta þarf eðlilega að berjast. Hér eru helsti gerðir bardaganna í taekwondo
Í taekwondo er keppt í kyorugi (keppnisbardagi). Það er Ólympískur taekwondo bardagi. Í þeim bardaga eru tveir keppendur sem berjast við hvorn annan. Báðir keppendur eru varðir með brynju um búkinn og hjálm á höfði. Einnig eru þeir með hlífar á hand/fótleggjum. Keppt er í lotum og sá sem hefur skorað fleiri stig þegar loturnar eru búnar sigrar. Stig eru skoruð með því að sparka með nægilega miklu afli í brynju eða hjálm andstæðingsins.
Sem sjálfsvörn og til að læra meira um bardaga eru ótal fleiri bardagaaðferðir notaðar á æfingum. Þar ber helst að nefna frjálsa bardaga, standandi glímu, hnefaleika, vopnaðan bardaga, gólfglímu og allt þar á milli. Þetta er ekki taekwondo keppnisíþróttin en er engu að síður æft líka. Ef einungis er æft keppnisíþróttina þá væri rökréttara að tala um íþróttamenn fremur en bardagamenn. Þeir sem æfa alla þætti taekwondo kunna fyrir sér í sjálfsvörn og flestum gerðum bardaga.
Yngri iðkendur og byrjendur taka minna þátt í bardaga. Bardagai krefst samspils margra þátta og er því meira æfður hjá fullorðnum og lengra komnum.
Grunntækni (gíbon)
Grunntækni er það sem nemendur þurfa að kunna áður en þeir fara í bardaga, sjálfsvörn, formæfingar, brot osfv. Grunntækni er einangruð tækni sem er kennd áður en farið er í æfingar sem krefjast flóknari athafna. Dæmi um grunntækni er kennsla á stöðum, einföldum spörkum, höggum og vörnum. Kennsla á lásum og köstum. Kennsla á líkamstöðu og beitingu. Gönguæfingar, líkamlegar styrktaræfingar, teygjur osfv. Grunntækni er gífurlega mikilvæg og er eitthvað sem má alltaf bæta. Ef grunntæknin er slök munu t.d. bardagaæfingar skila nemandanum litlu. Ef grunntæknin er ekki góð geta líkamlegar “styrktaræfingar” haft slæm áhrif. Byrjendur æfa meira af þessum æfingum.
Form (poomsae) http://youtube.com/watch?v=w5HrEOykyik&feature=related
Form eru æfð sem hluti af bardagalistinni taekwondo. Form eru fyrirfram ákveðin munstur hreyfinga. Löngu áður en hlífðarbúnaður og aðrar öryggisráðstafanir urðu til voru meiðsli mun tíðari þegar kom að því að æfa bardaga. Til að minnka líkur á meiðslum og til að bardagamennirnir gætu lært að beita sér rétt við hina ýmsu tækni voru formin búin til. Flestar fornar bardagalistir hafa sinn stíl af formum. Form eru einföld mynd af bardaga án andstæðinga. Til eru form sem æfð eru fyrir beltapróf og þarf að kunna algjörlega utanaf. Einnig eru til form sem búin eru til af viðkomandi og eru þá nefnd frjáls form. Jafnvel bardagaíþróttir sem hafa ekki föst form sem þarf að læra utanaf hafa form í einhverri útgáfu s.mbr. skuggabox í boxi. Þar er hnefaleikakappinn að bægja sér undan höggum og kýla í loftið og ímyndar sér að andstæðingur sé fyrir hendi.
Einnig er hægt að keppa í formum (poomsae). Þá er keppt uppá einkunn eftir nákvæmni, kraft, liðleika, jafnvægi ofl. Form eru mjög góð fyrir alla taekwondo iðkendur þar sem þau reyna á einbeitningu, sjálfsaga og þol, en það getur tekið mjög á að gera form. Einnig eru form notuð mikið á meðal yngri nemenda þar sem hreyfigeta þeirra og þroski leyfir ekki bardaga með fullri snertingu.
Brot (kjokpa) http://youtube.com/watch?v=VjShrlUrJmc
Brot eru til að æfa kraft, einbeitningu og hittni í tækninni. Brot eru gerð á æfingum í æfingaspýtur og flísar. Brot eru gerð á beltaprófum í spýtur og flísar/múrsteina. Einnig er algengt að nota brot við sýningar. Brot sýna fram á að nemandi geti beitt sér þannig að hann geti myndað hámarkskraft og hittni. Sumir halda að brot séu bara fyrir stóra kraftakarla en í raun skiptir líkamsbeiting og tækni mun meira máli. Má þá nefna sem dæmi að 100kg vöðvastæltir karlmenn hafa klikkað á brotum sem 30 kg barn hefur náð að brjóta. Tegundir af brotum eru t.d. kraftbrot, raðbrot, hraðbrot, hittnisbrot, hábrot ofl.
Sýna þarf fram á brot á beltaprófum við blátt belti og hærra.
Líkamlegar æfingar
Ótal æfingar eru notaðar á taekwondo æfingum og utan þeirra til að bæta eftirfarandi.
- Sprengikraft – hraði og kraftur
- Styrk – vöðvavinna með álagi
- Þol – vöðvavinna með lengra álagi. Lofháð og loftfirrt.
- Liðleiki – teygjur og liðkunaræfingar
- Fimi – líkamleg færni í flóknari hreyfingum
Ekki verður farið nánar í þessar æfingar hér. Ótal æfingar í ótal útgáfum eru notaðar til að bæta þessi atriði.Einhverjar þeirra, ef ekki allar eru notaðar á hverri einustu taekwondo æfingu.