Algengar spurningar

Sp: Er hægt að prófa æfingar og í hverju á maður að vera?
Sv: Já það er hægt að prófa. Í byrjun hverrar annar eru prufuæfingar þar sem áhugasamir geta mætt og prófað. Ef einhverjir ætla sér að prófa eftir það skulu þeir hafa samband við þjálfara því stundum eru hópar orðnir fullir eftir prufuæfingarnar. Mæta skal í léttum íþróttafötum, enga skó.

Sp:Má foreldri horfa á æfingu?
Sv: Almennt þá er ætlast til þess að foreldrar bíði frammi en ef börn eru að byrja og eru óörugg er í lagi að foreldrar séu í salnum ef þau eru ekki að trufla æfinguna.

Sp: Hver er munurinn á sport og hefðbundnu taekwondo?
Sv: Sport taekwondo er ólympískt taekwondo. Sú grein er viðurkenn af alþjóða Ólympíunefndinni og hefur verið opin keppnisgrein síðan á leikunum árið 2000. Þar er æft íþróttina taekwondo. Hefðbundið taekwondo eru aðrir þættir taekwondo t.d. formæfingar, grunntækniæfingar, sjálfsvörn o.s.fv. 

Sp :Hvar fæ ég galla og hlífar?
Sv: Hægt er að versla galla/hlífar hjá okkur eða á hinum ýmsu netverslunum. Deildin er yfirleitt með sölu á varningi nokkrum vikum eftir að æfingar hefjast á haustönn. Þá er það auglýst sérstaklega og þá er hægt að versla galla og hlífar. Ekki er nauðsynlegt að eiga galla nema iðkendur ætli sér í beltapróf eða keppni. Sjá nánar um hlífar hér á síðunni.

Sp: Hvaða aldur er að æfa?
Sv: Við erum með hópa frá 6. ára aldri (1. bekk) og uppúr. Skoðaðu æfingatöfluna okkar fyrir nánari upplýsingar

Sp: Ég er svo stirður/gamall/í lélegu formi, get ég æft?
Sv: Það eina sem þarf að hafa er áhugi, geta til að fylgja leiðbeiningum og geta unnið með hópnum, hitt kemur með æfingunni.

Sp: Er barist á æfingum?
Sv: Taekwondo er bardagalist og bardagaíþrótt og því er eðlilega barist á æfingum. Bardaginn er með ákveðnum reglum og hlífum til að verja iðkendur. Byrjendur barna berjast mjög lítið, aðallega í gegnum leiki.

Sp: Er áhersla á keppni í félaginu?
Sv: Hvatt er til keppni og virkrar þátttöku í taekwondo atburðum á Íslandi. Það er þó ákvörðun hvers og eins hvort tekið sé þátt í þeim.

Sp: Er hægt að falla á beltaprófum?
Sv: Ef það væri ekki hægt að falla þá væri það ekki próf. Ef fólk fellur þá er það einfaldlega vegna þess að það stóðst ekki þær kröfur sem eru auglýstar. Beltakröfurnar eru á síðunni.

Sp: Af hverju fer fólk á mismunandi tíma í beltapróf?
Sv: Iðkendur fara í beltapróf þegar kennarar meta það að þeir hafi kunnáttu, getu, mætingu og viðhorf m.v. það belti sem skal taka. Það er eins og flest; einstaklingsbundið.

Sp: Hvað er maður lengi að ná svarta beltinu?
Sv: Það er eins og áður segir mjög einstaklingsbundið. Almennt er það að taka 5-7 ár fyrir þá sem æfa vel.

Sp: Hvenær eru beltapróf?
Sv: Beltapróf eru haldin í félaginu almennt með 4-8 vikna millibili. Iðkendur eru látnir vita þegar þeir eru tilbúnir í beltapróf. Almennt eru um 20-30 manns í hverju beltaprófi og tekur prófið um klukkutíma fyrir hverja 10 próftaka.

Sp: Hvernig get ég æft mig heima/ hjálpað barninu mínu að æfa sig?
Sv: Fara vel yfir allar beltakröfur á síðunni og horfa á myndböndin. Æfa tækni, þrekþætti og teygjur. Einnig skal huga vel að mataræði og hvíld. Hægt er að versla búnað eins og sparkpúða í hinum ýmsu stærðum til að æfa sig á.

Sp: Er hægt að taka beltapróf fyrr ef maður kann allt fyrir beltið eða taka 2 belti í einu?
Sv: Eins og sést í kaflanum um belti og beltapróf þá er farið eftir kunnáttu, getu, mætingu og viðhorfi. Ef iðkendur taka belti með styttri tíma en aðrir þá er það yfirleitt þegar iðkandi sem hefur uppfyllt allar kröfur um að fá að fara í beltapróf og ekki tekið beltapróf í langan tíma. Það er hinsvegar mjög óalgengt að það gerist.