Hagnýtar upplýsingar

Um galla (dobok)

Taekwondo galli eða dobok eins og hann er kallaður á kóresku er einkennisfatnaður í taekwondo. Gallinn samanstendur af hvítum buxum, hvítum jakka með lokuðu V- hálsmáli og hvítum kraga og belti. Gallinn er notaður á mótum og öðrum taekwondo viðburðum. Iðkendur sem hafa æft í nokkra mánuði og ætla sér að keppa eða fá belti þurfa að eiga taekwondo galla. Taekwondo gallar eru til sölu hjá deildinni allt árið um kring. Á vissum tímapunktum gæti verið skortur á göllum á meðan pantanir fara fram því deildin reynir að standa ekki uppi með mikinn lager. Athugið að byrjendur þurfa ekki að eiga galla fyrr en þeir ætla sér að keppa eða taka belti og það gerist að lágmarki eftir nokkra mánuði af æfingum. Þangað til er hægt að vera í þægilegum æfingafatnaði, t.d. íþróttabuxum, eða stuttbuxum og bol.


Gallan skal þrífa á köldu 30-40°. Gallar þola almennt að fara í þurrkara. Flestir gallar minnka aðeins í fyrsta þvotti. Gott er að kaupa galla sem er a.m.k. einu númeri stærri, sérstaklega fyrir börn.

Myndband um hvernig skal binda beltið. (2 leiðir)
Myndband um hvernig skal brjóta gallann og beltið saman.


Um hlífar, smellið hér.


Að mæta á æfingar

Iðkendur skulu vera tilbúnir í æfinguna ekki seinna en 10 min fyrir sína æfingu. Það þýðir að iðkendur skulu vera klæddir og með þann búnað sem þeir þurfa, hlífar, vatnsbrúsa osfv. og með öllu tilbúnir að æfa. Búnir að fara á klósettið, vera snyrtileg og komin í salinn og búin að setjast niður og tilbúnir ekki seinna en 10 min fyrir áætlaðan byrjunartíma æfingarinnar. Foreldrar eða aðrir sem skutla iðkendum á æfingar skulu passa vel upp á þetta. Ef iðkandi kemur of seint skal hann fara umsvifalaust til þjálfara og tilkynna komu sína.

Þegar iðkendur koma inn í salinn skulu þeir hneigja sig og setjast svo niður við vegginn þar til þeirra æfing byrjar. Ekki skal trufla æfingar sem eru í gangi. Iðkendur skulu bíða við vegginn þar til þjálfari segir þeim að koma inn og byrja æfinguna.

Eftir æfingu skulu iðkendur hneigja sig við útgöngu. Ef iðkendur vilja vera lengur og æfa sig eða teygja þá mega þeir gera það á hliðarlínunum.


Veikindi og meiðsl

Ef iðkendur veikjast eða geta að einhverjum ástæðum ekki komið á æfingar skal það tilkynnt til þjálfara áður en æfingin þeirra á að vera, því fyrr því betra. Hægt er að tilkynna með sms, emaili eða facebook skilaboðum. Ekki þarf að setja á facebook síðuna fyrir alla að sjá, nóg er að láta þjálfarann vita.

Ef iðkendur meiðast er samt ætlast til þess að þeir mæti á æfingar. Látið þjálfara vita af meiðslunum og hugsanlega er hægt að gera eitthvað annað í staðinn, eða hjálpa til við æfinguna. Annars geta iðkendurnir horft á æfinguna. Ef iðkendur hætta að mæta á æfingar þegar þeir meiðast eru meiri líkur á að áhuginn og sjálfstraustið gagnvart íþróttinni minnki. Þegar iðkendur mæta þá eru þeir að halda félagslegum tengslum, nota sjónmyndaþjálfun og aukaæfingar sem þeir geta og halda þannig einbeitingu og geta sett sér ný markmið.


Facebook síðan, heimasíðan og internetið

Allar minni tilkynningar og skilaboð fara fram á
facebook síðu deildarinnar. Allir iðkendur og foreldrar þeirra skulu gerast meðlimir og taka þátt í umræðum. Ef eitthvað er svo að gerast með stuttum fyrirvara þá fer það þar inn.

Allar stórar tilkynningar, breytingar á æfingatöflu o.sf.v. fer á heimasíðuna. Þar er einnig fullt af fróðleik sem eykst regulega.

Tki.is er t.d. með dagatal með viðburðum, t.d. mótum og æfingabúðum svo hægt sé að taka dagsetningar frá.

Dartfish.tv - margir af bestu keppendum á stórmótum í bæði bardaga og formum.

Youtube.com  - Fullt til að myndböndum um taekwondo. Rásin “helgiflex” er rásin hans Helga yfirþjálfara og mikið af keppnismyndböndum þar.

Internetið er svo fullt af fróðleik og upplýsingum sem getur nýst iðkendum. Skoðið
tenglar og sjáið þar helstu síður með taekwondo upplýsingum fyrir iðkendur.

Allir iðkendur taekwondo deildar Keflavíkur eru hvattir til að taka þátt í jákvæðri og uppbyggilegri netumræðu og skulu ekki taka þátt í einelti og neikvæðu umtali um íþróttina eða annað fólk.


Um einelti og ofbeldi

Iðkendur taekwondo deildar Keflavíkur taka ekki þátt í einelti eða ofbeldi. Þeir sem það gera eru ekki velkomnir að æfa hjá deildinni. Öllum er gefið tækifæri á að bæta sig, en það að beita einhvern ofbeldi, sama hvort það er líkamlegt eða andlegt er val, og það þarf að velja það að gera það ekki ef einhver ætlar að velja það að æfa hjá okkur. Það er þá sama hvort fólk geri það allsgáð eður ei.


Um keppnir

Keppt er í taekwondo, enda er taekwondo Ólympíuíþrótt. Keppendum er skipt í flokka og keppa saman eftir ákveðnum reglum, líkt og á æfingum. Iðkendur eru hvattir til að keppa reglulega til að bæta færni sína í íþróttinni. Á mótum sést enn betur hvort iðkendur séu að bæta sig og læra þá færni sem farið er í á æfingu. Ennfremur er það einn besti mælikvarðinn á hvort iðkendur geti aðlagað sig að aðstæðum og beitt fjölbreytti tækni gegn ólíkum andstæðingum.

Fyrir rauðbeltis og svartbeltisgráður verða iðkendur að taka þátt í keppnum, en mælt er með því að iðkendur byrji að keppa sem fyrst til að venjast því. Annars þá geta iðkendur valið hvort og hvenær þeir vilja keppa.


Um tap og mótlæti

“Tap” í keppnum eða önnur “mistök” og brestir eru hluti af því að bæta færni sína. Allir þurfa að gera ótal mistök áður en þeir kunna af alvöru þá tækni sem þeir eru að gera. Bestu íþróttamenn heims í öllum greinum tapa og hafa tapað ótal sinnum. Í raun þá tapa þeir sem hafa náð árangri yfirleitt mun oftar en þeir sem gera það ekki, þaðan kemur reynslan þeirra.  Oft segja reyndir íþróttamenn að þeir læri mun meira af mistökum sínum og mótlæti heldur en sigrum og velgengni. Það verður því að teljast að mótlæti sé hluti af velgengni og þekkingu. Einnig á hugtakið “tap” oft ekki við í keppnum. Hugtakið tap er þegar maður glatar einhverju sem maður átti, en í raun þá fær maður reynslu fyrir það að keppa sama hvort maður sigrar sína viðureign eða ekki.


Að vera börnunum sínum fyrirmynd

Foreldrar ættu að reyna eftir fremsta megni að vera börnunum sínum góð fyrirmynd. Til að börnin geti liðið vel með sjálfa sig skal skapa þeim umhverfi sem er þeim jákvæð áskorun, heilsusamlegt, án fordóma og án hræðslu. Hræðsla foreldra, sama hversu rökleg hún kann að vera, verður oft að hræðslu barnanna þeirra ómeðvitað. Leggjið það í vana ykkar að tala vel um fólk og hrósa, ekki tala illa um aðra svo börnin heyri til. Ef þið talið illa um fólk í návist barnanna ykkar gefið þið þeim ómeðvitað leyfi til þess að gera hið sama gagnvart öðrum og einelti byrjar oft á neikvæðu umtali.

Á mótum skulu allir keppendur og þeirra fjölskyldur vera fyrirmyndir. Hvetjið ykkar börn og liðsfélaga þeirra á jákvæðan hátt. Ekki tala illa um dómara eða aðra keppendur. Sýnið þolinmæði og jákvæðni. Sama hvort barnið ykkar sigrar eða tapar skulið þið sýna þeim stuðning og hrósa þeim fyrir þeirra frammistöðu, án þess að gera lítið úr annaðhvort dómurum eða mótherjum. Berðu virðingu fyrir því að mótherji barnsins þíns er líka barn sem kom á þetta mót á sínum forsendum og barðist eftir reglunum. Berðu einnig virðingu fyrir því að dómarinn og aðrir starfsmenn eru líklega þarna í sjálfboðastarfi og án þessara aðila gæti barnið þitt ekki keppt.

Að veita börnunum sínum stuðning

Ótal viðburðir eru haldnir í taekwondo á hverju ári. Við hvetjum iðkendur til að taka þátt í mótum, æfingabúðum, félagslífi, fjáröflunum, aukaæfingum o.s.fv. Þeir sem það gera endast lengur í íþróttinni og eiga öllu jafnan mun ánægulegri stundir á meðan þeir eru að stunda íþróttina. Foreldrar ættu að vera hvetjandi þegar kemur að því að sækja viðburði og beina börnunum sínum á réttar brautir. Það er oft erfitt að taka ákvarðanir sem barn, sérstaklega ef maður er því ekki vanur, og því er gott að eiga foreldra sem sýna stolt sitt og ánægju með virkni barnanna í heilbrigðu íþrótta- og tómstundarstarfi. Það er ómetanlegur þáttur í að byggja upp heilsusamlegan og langvarandi lífsstíl. Foreldrar eru því hvattir til að sýna börnunum þolinmæði og vera dugleg að taka þátt í áhugamálinu þeirra með þeim, og leggja á sig að koma þeim á æfingar, aukaæfingar sem þeim standa til boða ásamt mótum og fleira. Þetta gefur þeim oft meira sjálfstraust og dugnað, og gerir þeirra ástundum ánægulegri.