Scandinavian Open úrslit og ferðasaga
Eldsnemma að föstudagsmorgni lögðu 26 Íslendingar leið sýna að Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að taka þátt í, þjálfa, hjálpa til eða fylgjast með á Scandinavian Open mótinu. Með í för voru 11 Suðurnesjamenn. Eftir langt ferðalag til Horsens í Danmörku var komið sér fyrir í einbýlishúsi með allan hópinn þar sem hann gisti við þröngar og kaldar aðstæður. Verandi Íslendingar var ekkert tilefni til kvartana. Eftir vigtun um kvöldið fengu margir langþráðan og góðan kvöldverð til að safna orku fyrir keppnina daginn eftir. Vaknað var snemma um morguninn, hámað í sig góðan morgunverð sem duglegir foreldrar höfðu tilbúinn og gengið síðan beinustu leið í keppnishöllina.
Keflvíkingar voru með 8 keppendur, en auk þess fór Rut Sigurðardóttir með sem þjálfari, og Kolbrún og Aníta sem foreldrar og aðstoðarmenn.
Óðinn Már Ingason átti fyrsta bardaga. Hann stóð sig mjög vel í bardaganum og átti góða takta. Andstæðingurinn hans komst yfir en var dæmdur úr leik fyrir ólöglega tækni. Óðinn hélt því áfram í næsta bardaga. Þar mætti hann gífurlega sterkum keppanda frá Eistlandi og tapaði.
Jón Steinar Brynjarsson kom sterkur inn í bardagann og gerði mjög góða hluti. Dómarinn var gjarn að gefa honum mínusstig fyrir minnsta tilefni og það reyndist fallvaldur fyrir Jón. Einnig tókst andstæðingnum að meiða hann og draga úr honum kraft.
Arnór Freyr Grétarsson átti mjög góðan bardaga á móti slyngum keppanda. Arnór nýtti sér tæknina og ákveðni og kom hinum oft úr jafnvægi. Andstæðingurinn nýtti sér þó veikleika Arnórs og náði ódýrum gagnárásum á hann þegar Arnór bjóst ekki við og Arnór tapaði þessum bardaga naumlega.
Sigfús Hlíðar Þorleiffsson var með eindæmum kraftmikill og ákveðinn í bardaganum. Anstæðingurinn hans var mjög góður og átti Sigfús ekki nóg í hann til að vinna en viljann vantaði ekki.
Ævar Þór Gunnlaugsson átti góðan og nauman bardga en meiddist í fyrstu lotu og þurfta að gefa bardagann.
Aron Yngvi Nielesen átti frábæran fyrsta bardaga og vann sér reynslumeiri anstæðing án þess að virðast hafa mikið fyrir því. Í seinni bardaganum var hann þreyttari og vantaði ákveðni og þurfti þar að láta í minni pokann fyrir sterkum keppanda frá Eistlandi. Þess má geta að Eistland skartaði mjög sterku liði á mótinu og unnu þeir marga flokka. Aron vann sér til bronsverðlauna fyrir frammistöðuna.
Kristmundur Gíslason keppti á móti mjög hörðum keppanda með töluverða reynslu. Kristmundur náði ekki að skora mörg stig á hann þrátt fyrir mikla ákveðni og kraft og tapaði bardaganum.
Helgi Rafn Guðmundsson fór sem þjálfari hópsins en keppti einnig. Í fullorðinsflokkunum var notast við nýtt tilraunakerfi sem inniheldur rafbrynjur sem telja stig. Þetta þótti ganga nokkuð brösulega og virtist næst er ómögulegt að skora stig. Í fyrsta bardaga keppti Helgi á móti sterkum dönskum keppanda en vann hann 2-1. Þarnæst keppti hann á móti öðrum sterkari Dana og eftir mikinn þræting við dómara og ósanngjarna dómgæslu var Helgi undir að stigum og tapaði því úrslitabardaganum og varð að láta sér silfurverðlaunin nægja. Hann var einnig valinn keppandi mótsins af dómurum og mótshöldurum.
Mótið var stórt og skemmtilegt og voru margir góðir bardagar. Íslendingar fóru heim með 12 verðlaun samtals, þar af 4 gull. Mikil reynsla fór í bankann hjá öllum keppendum, sér í lagi Keflvíkinga sem voru nær allir að keppa á sínu fyrsta erlenda móti.
Myndir af mótinu eru komnar á myndasíðuna