Fréttir

Taekwondo | 29. maí 2012

Norðurlandamót 2012

Um helgina var haldið Norðurlandamótið í taekwondo. Mótið var haldið í Malmö, Svíþjóð. Um 400 keppendur voru á mótinu frá öllum Norðurlöndunum. Ísland sendi 30 manna lið, en meðal þeirra voru keppendur, þjálfarar og formaður taekwondo sambandsins. Keppendur frá Keflavík voru 7 og svo fór Helgi Rafn með sem þjálfari, en hann gat ekki keppt á mótinu vegna meiðsla. Flestir keppendurnir voru að keppa á sínu fyrsta erlenda móti.

Jón Steinar Brynjarsson keppti fyrstur Keflvíkinga á laugardag. Hann keppti við dreng frá Svíþjóð. Jón stjórnaði bardaganum alveg frá byrjun, með góðri tímasetningu og tækni og sigraði örugglega 16-5. Hann meiddist því miður í fætinum og var því mjög tæpur á að geta keppt næsta bardaga. Hann fór samt í næsta bardaga gegn Danmörku og tapaði þeim bardaga sem var mjög svekkjandi því hann var langt frá sínu besta vegna meiðslanna. Andstæðingur hans sigraði svo flokkinn. Jón Steinar fékk bronsverðlaun.

Kristmundur Gíslason var færður upp í fullorðinsflokk, en það var enginn keppandi skráður í hans flokk. Kristmundur er í unglingaflokki og var í 5-8 sæti á síðasta heimsmeistaramóti. Þarna keppti hann við feykiöflugan og reyndan keppanda frá Finnlandi. Kristmundur barðist vel og gaf ekkert eftir gegn þessum sterka keppanda en tapaði því miður bardaganum.

Á sunnudeginum kepptu svo yngri keppendurnir.

Ágúst Kristinn Eðvarsson keppti fyrsta bardaga við Finnland. Hann sýndi góða tækni og ákveðni eins og hann er vanur og sigraði bardagann mjög öruggt 10-4. Í úrslitabardaganum keppti hann svo við Frederik Emil Olsen sem er upprennandi taekwondo stjarna frá Danmörku. Hann er einungis 10 ára gamall en hefur sigrað yfir 80 alþjóðleg mót. Þess má geta að þetta er fyrsta erlenda mót Ágústar. Ágúst sýndi mikinn styrk, hélt allan tímann pressu á Olsen, en þurfti að láta í minni pokann, tapaði 14-1 þrátt fyrir góða frammistöðu. Þetta var eina stig sem hefur verið skorað á Olsen í yfir 6 mót í röð. Ágúst fékk silfurverðlaun á mótinu.

Svanur Þór Mikaelson keppti við Svíþjóð í fyrstu umferð í bardaga. Bardaginn var jafn, en Svíinn var mjög sterkur keppandi, bardaginn endaði 1-0 fyrir Svíanum eftir góða baráttu. Svanur Keppti einnig í formum og stóð sig vel. Svanur fékk bronsverðlaun í báðum greinum.

Sverrir Örvar Elefsen keppti í formum. Upphaflega átti hann að keppa í fínum flokki sem hentaði honum vel, en sá flokkur var sameinaður við hærri flokk með bæði reyndari og eldri keppendum. Sverrir stóð sig vel en því miður ekki í verðlaunasæti.

Ástrós Brynjarsdóttir keppti við stúlku frá Svíþjóð í fyrsta bardaga. Ástrós sýndi betri frammistöðu á öllum vígstöðum og sigraði örugglega 4-1. Í úrlslitabardaganum keppti hún við aðra stelpu frá Svíþjóð. Bardaginn var jafn allveg fram að lokum þegar sú sænska náði að skora 2 stig og bardaginn endaði 3-1, en hefði getað farið á hvorn veginn. Ástrós keppti líka í formum og náði þar góðum árangri. Hún fékk bronsverðlaun í formum og silfurverðlaun í bardaga.

Karel Bergmann Gunnarsson keppti við Svíþjóð í fyrstu umferð. Karel barðist með miklum krafti og ákveðni, en dómgæslan í bardagnum var mjög slök. Hann fékk ekki stig sem hann átti að fá og svo gaf dómarinn honum mínusstig sem áttu ekki rétt á sér, og Karel tapaði bardaganum 3-4 þrátt fyrir að hafa verið með mun betri sóknir og takta í baradagnum. Andstæðingur hans sigraði svo flokkinn auðveldlega. Karel fékk bronsverðlaun.

Íslendingar fengu í heildina 9 brons, 5 silfur og eitt gull. Ingibjörg Erla Grétarsdóttir fékk gullverðlaun í sínum flokki. Íslenska landsliðið var svo í 2. sæti yfir bestu landsliðin á mótinu eftir frábæran árangur keppenda sinna.

Keflvíkingar fengu 6 brons og 2 silfur, besti heildarárangur deildarinnar á erlendi grundu frá upphafi.