Lokahóf
Fimmtudaginn 24. maí var lokahóf taekwondo deildarinnar haldið. Þessi seinasti viðburður deildarinnar á þessu tímabili var mjög skemmtilegur. Byrjað var á mjög stórri sameiginlegri æfingu í Myllubakkaskóla. Síðan var gengið í halarófu í K-húsið þar sem stjórnin og foreldrafélagið var með tilbúið grill og góðgæti.
Nemandi ársins að þessu sinni var Guðmundur Jón Pálmason, en hann hefur sýnt miklar framfarir og aga á tímabilinu. Hann vann sinn flokk í bardaga á TSH móti III, gull á Sparisjóðsmótinu og silfur á TSH móti I. Einnig er hann mikil fyrirmynd í sinum hóp og hefur sýnt mikinn metnað í æfingar á þessu tímabili.
Að auki þess að velja nemanda ársins var að þessu sinni veitt sérstök viðurkenning fyrir bestu fjölskylduna. Sú viðurkenning gekk í hlut fjölskyldu Kolbrúnar Guðjónsdóttur og Brynjars Steinarssonar. Kobrún hóf að æfa með deildinni þetta vor og stofnaði auk þess foreldrafélag sem hefur gengið vel síðan. Börnin þeirra, Jón Steinar og Ástrós eru fyrirmyndarnemendur og hafa staðið sig hetjulega á öllum sviðum á vetrinum sem er að enda.
Deildin þakkar fyrir sig og kveður þetta besta ár hingað til hjá deildinni.
Æfingar hefjast aftur í september.