Keflvíkingar Bikarmeistarar
Um helgina var haldið síðasta Bikarmótið í Bikarmótaröð taekwondosambands Íslands. Haldin eru 3 mót á hverju ári og gilda samanlögð stig allra mótanna þegar valið er Bikarmeistara ársins. Taekwondo deild Keflavíkur hefur haldið þessum titli óslitið frá árinu 2007, en nú virtist í fyrsta sinn vera komin veruleg ógn við titilinn. Ármenningar unnu annað mótið sem haldið var í febrúar með yfirburðum og því var skammt á milli Keflavíkur og Ármanns í heildarstigakeppninni þegar þetta síðasta mót var haldið. Keflvíkingar og Ármenningar röðuðu sér í efstu sætin í hvern flokkinn á fætur öðrum og ljóst var að það yrði mjótt á mununum. Í lok helgarinnar fór svo þannig að Keflvíkingar náðu að knýja fram sigur í stigakeppninni með mjóum mun. Það er því ljóst að samkeppnin í íþróttinni er að aukast en Keflvíkingar hafa sýnt það og sannað að þeir eru með sterkustu heildina á landinu í dag.
Ekki er tími til að fagna lengi þar sem Norðurlandamótið í taekwondo verður haldið á Íslandi og nánar tiltekið í Reykjanesbæ þann 17. maí n.k. og er keppnisliðið því í fullum undirbúningi fyrir það.