Keflvíkingar bikarmeistara 4. sinn í röð
Um helgina hélt taekwondo samband Íslands síðasta bikarmótið á tímabilinu. Á mótinu voru um 200 keppendur frá öllum félögum á landinu. Bikarmótin eru þrjú á hverju ári og safna kependur stigum á öllum mótunum. Keflavík sigraði fyrstu tvö mótin örugglega. Á þessu þriðja móti voru Keflvíkingar hinsvegar ekki með stærsta liðið eins og hefur verið á síðustu mótum. Þrátt fyrir það þá sigruðu Keflvíkingar marga flokka og nánast allir keppendur náðu í verðlaunasæti. Á laugardeginum voru barnaflokkar að keppa. Keflvíkingar náðu sér þar í fjölda verðlauna. Keppendur bættu sig mikið á milli móta og nokkrir voru að keppa í fyrsta sinn með góðum árangri.Á sunnudeginum keppti unglingar og fullorðnir. Keflvíkingar eiga marga af bestu keppendum landsins í þessum flokkum, þar á meðal nokkra landsliðskeppendur og Íslandsmeistara. Keppendur stóðu sig frábærlega og unnu flesta flokka sem Keflvíkingar voru með keppendur í.
Svanur Þór Mikaleson var stigahæsti keppandi drengja í samanlögðu og í formum. Ástrós Brynjarsdóttir var stigahæsti keppandi stúlkna í samanlögðu og formum. Adda Paula var stigahæsti keppandi stúlkna í bardaga.
Keflvíkingar voru stigahæstir liða á þessu móti og unnu bikarmeistaratitilinn fyrir félag mótaraðarinnar. Þetta er í 4. sinn í röð sem Keflavík hafa sigrað bikarmótaröðina, en Keflavík hefur ekki tapað bikarmóti síðan 2006. Auk þess eru Keflvíkingar Íslandsmeistarar og því augljóst að Keflavík er sterkasta félag landsins í taekwondo, en taekwondo er í miklum uppgangi um land allt.
11-13 maí verða haldnar æfingabúðir og svartbeltispróf hjá Keflavík, þar sem 5 iðkendur þreyta próf. Helgina þar á eftir eru 8 iðkendur deildarinnar að fara að keppa á Norðurlandamótinu í Svíþjóð. Þar á meðal verða 4 af þeim sem taka svartbeltisprófið helgina áður, Jón Steinar Brynarsson, sem var valinn besti keppandinn á síðasta Íslandsmóti og Kristmundur Gíslason, sem varð í 5-8 sæti í Heimsmeistaramótinu fyrir stuttu.