Fréttir

Taekwondo | 29. mars 2010

Keflavík Íslandsmeistarar

Laugardaginn 27. mars s.l. var haldið Íslandsmótið í taekwondo bardaga. Mótið var haldið í íþróttahúsinu á Ásbrú.  Til keppnis mættu bestu keppendur landsins og fulltrúar frá flestum taekwondo félögum á Íslandi. Mikið var um skemmtilega bardaga og mikið af efnilegum ungum keppendum að koma upp ásamt eldri og reyndari keppendum. Keflvíkingar skörtuðu stærsta og sterkasta liði sem þeir hafa verið með á Íslandsmóti frá upphafi. Keflvíkingar komust í úrslit í nánast öllum flokkum, unnu 10 af 18 flokkum á mótinu og samtals 24 verðlaun. Afraksturinn var einnig að Keflavík vann heildarkeppnina og eru Keflvíkingar því Íslandsmeistarar félaga í taekwondo. Þetta er sögulegur atburður því eingöngu eitt félag hefur áður unnið þann titil og haldið honum í 13 ár, þ.e. Fjölnir.

Fyrr um sama dag var einnig haldið barnamót TKÍ og þar voru Keflvíkingar í aðalhlutverki og unnu nærri því alla flokka.

Mikil gróska hefur verið í taekwondo hjá Keflavík síðustu ár. Félagið er það stærsta sinnar tegundar á landinu og hefur náð einstökum árangri. Aðalþjálfarar deildarinnar eru Helgi Rafn Guðmundsson, íþróttafræðinemi og fyrrverandi landsliðsfyrirliði og Rut Sigurðardóttir, íþróttafræðingur, þrefaldur Norðurlandameistari og fimmfaldur Íslandsmeistari. Hjá deildinni er virk stjórn og foreldrafélag sem er mikilvægur þáttur fyrir skipulag deildarinnar. Auk þess er deildin í öflugu samstarfi við flest önnur taekwondo félag á landinu.

Eftir mánuð verður síðasta bikarmótið í BS bikarmótaröðinni haldið á Selfossi. Þar munu krýndir bikarmeistarar einstaklinga og bikarmeistarar félaga. Keflavík hefur verið bikarmeistari félaga síðustu tvö ár, og eru komin langt á veg með að halda þeim titli í annað ár. Auk þess hafa 5 af 9 bikarmeisturum einstaklinga verið hjá Keflavík síðustu tímabil. Fyrir áramót urðu Keflvíkingar Íslandsmeistarar félaga í formum, sem er hin keppnisgrein taekwondo. Í haust munu svo nokkrir nemendur Keflavíkur þreyta próf fyrir svart belti, í fyrsta sinn í sögu deildarinnar. Þetta er því góð veisla árangurs hjá taekwondo deild Keflavíkur sem á einmitt 10 ára afmæli í haust.