Jón Steinar Brynjarsson var útnefndur Taekwondo maður ársins 2008
Jón Steinar Brynjarsson var útnefndur Taekwondo maður ársins 2008 hjá Taekwondo-deild Keflavíkur.
Jón Steinar hefur verið einn sterkasti keppandi landsins síðustu ár. Í byrjun árs keppti hann á öðru bikarmóti TSH og stóð sig með prýði. Hann stjórnaði bardögum sínum frá upphafi en þurfti að gefa undanúrslitaviðureignina vegna meiðsla og láta sér bronsið duga.
Jón Steinar keppti á Íslandsmótinu í mars og sigraði alla sína bardaga með einstakri kænsku og ákveðni. Hann átti þar við bestu keppendur landsins í sínum þyngdarflokk og endaði sem Íslandsmeistari.
Í apríl var Jón Steinar valinn í A-landslið unglinga.
Í apríl var lokamót bikarmótaraðar TSH haldið í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ. Þar var tekin saman árangur allra bikarmótana, þar sem Jón Steinar stóð uppi sem Bikarmestari drengja/karla yfir 13 ára aldri. Á sama móti var Keflavík krýnt sem Bikarmeistarar félaga fyrir samanlagðan árangur.
Jón Steinar var valinn nemandi ársins í sínum hóp í uppgjöri Keflavíkur í maí. Jón Steinar var á meðal 5 nemenda í Keflavík sem tóku rautt belti með svartri rönd í júní og er kominn langt á veg með að ná svarta beltinu í íþróttinni.
Í október var keppt á TSH bikarmóti á Akureyri þar sem Jón Steinar sigraði sinn flokk.
Jón Steinar hefur verið ósigraður í sínum flokki í næstum 2 ár, og segir það margt um getu hans í íþróttinni. Hann er einnig góður í keppni í formum og á nokkur verðlaunasæti í þeirri grein.
Auk þessara afreka í keppni hefur Jón Steinar verið fyrirliði keppnishóps Keflavíkur frá stofnun og staðið sig þar með stakri prýði. Jón Steinar er góð fyrirmynd allra nemenda í Keflavík og hikar ekki við að hjálpa þeim sem þurfa aðstoð. Hann er einn af efnilegustu keppendum landsins og munum við eflaust sjá meira af honum á komandi árum.