Fréttir

Taekwondo | 10. mars 2010

Íslandsmótið í sparring

Íslandsmótið í sparring 2010 fer fram í Keflavík, laugardaginn 27. mars. Keppt verður í karla- og kvennaflokkum, minior, junior, senior, eftir þátttöku. Mótið er haldið í íþróttahúsinu á Vallarheiði.

Skráningarfrestur er til miðnættis miðvikudaginn 17.mars nk. Er þá miðað við fullgildar skráningar, með réttum upplýsingum.

Vinsamlegast skráið líka starfsmenn og dómara, 2 starfsmenn og 1 dómara pr. hverja 10 keppendur. Minni lið mega koma með a.m.k. 1 starfsmann. Ef félög treysta sér ekki í að útvega starfsfólk geta þau borgað 5.000kr fyrir hverja 10 keppendur. Þessi upphæð fer þá í að borga þeim starfsmönnum sem munu axla ábyrgðina og meira álag á mótinu. Dómarar fá mat á staðnum, dómaraboli og fleira.

Keppt verður í Youth Olympic Minior (11-13 ára / '96. '97, '98), Youth Olympic Junior ('93, '94, '95), Senior ('92 og eldri) og að lokum í nýjum superior-flokk. Í þeim flokki er 30 ára aldurstakmark, keppendur mega ekki vera með svart belti, hafa keppt fyrir landsliðið eða verið fastir landsliðsmenn á einhverjum tíma. Þyngdarflokkar verða auglýstir von bráðar í hverjum flokk.

Verð er 3.500 kr pr. keppanda, leggist inn á reikning  324-26-304  324-26-304 kt 491106-1580, Ssangyongtaekwon. Skráningar og leiðréttingar eftir 17. mars munu kosta 4.500 (í heildina) kr á keppanda en eftir 20. mars verður skráningu algerlega lokið.

Keppt verður með ADIDAS EBP brynjum í fullorðinsflokkunum, Sr/Sup. og hugsanlega einnig í úrslitabardögum í Mr./Jr. Bardagar verða 2x2 mínutur, 30 sek. hlé. Úrslit 3x2mín, 1 mín hlé.

Samhliða Íslandsmótinu verður barnamót með nýja SsangYong mótafyrirkomulaginu. Mótsgjöldin eru aðeins 1500 kr. á barnamótið. Flokkar verða settir upp á mótsstað. Barnamótið er fyrir öll börn 10 ára ('99) og yngri.

Skylda er að vera með eftirfarandi hlífar: Hjálmur, brynja, tannhlíf, punghlíf og samsvarandi kvenútgáfur, handa-, fótahlífar og hanska. Táslur verða leyfilegar en ekki skylda. Mótstjórn áskilur sér rétt til að fara yfir gerð og tegund hlífanna og mun ekki leyfa keppendum að taka þátt án allra hlífa.
Þessar reglur gilda fyrir alla flokka, alla keppendur, án undantekninga. Tími og dagsetning vigtunar verður auglýst þegar nær dregur.

Athugið að núgildandi sparring reglur WTF verða í gildi á þessu móti. Þrjú stig fyrir höfuð, tvö stig fyrir snúningsspörk og eitt stig fyrir gilt spark eða högg í brynju. Dómaranámskeið verður haldið fyrir mótið þar sem farið verður ítarlega í nýju reglurnar.

Fylgist með á Taekwondo.is í næstu viku fyrir frekari upplýsingar.

Skráning og upplýsingar á bikarmot@sytk.org