Fréttir

Taekwondo | 12. nóvember 2009

Íslandsmót / barnamót í poomsae

Íslandsmótið í Púmse/MuYe/Showbreak verður haldið í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi 28. til 29. nóvember.

Skráningarmiða er hægt að fa hjá kennara og skal skila ásamt keppnisgjaldi, 3000kr fyrir föstudaginn 20. nóvember.

Einstaklingskeppni - allur aldur
Keppandi gerir Tae Geuk form eða svartbeltisform. Leyfilegt er að gera fjögur form niður og tvö form upp fyrir sína beltagráðu. Æfa þarf 2 form, þar sem þeir sem komast í úrslit eiga að gera aftur. Skipt er í beltaflokka í einstaklingskeppni.

Parakeppni - allur aldur
Í parakeppni gera tveir einstaklingar Tae Geuk form eða svartbeltisform. Leyfilegt er að gera fjögur form niður og tvö form upp fyrir sína beltagráðu miðað við lægsta beltið í hópnum. Engin beltaflokkar. Sami einstaklingur getur ekki skráð sig í fleiri en einn hóp. Æfa þarf 2 form, þar sem þeir sem komast í úrslit eiga að gera aftur.

Hópakeppni - allur aldur
Í hópakeppni gera 3 eða fleiri Tae Geuk form eða svartbeltisform eins og í einstakling og parakeppni. Leyfilegt er að gera fjögur form niður og 2 form upp fyrir sína beltagráðu miðað við lægsta beltið í hópnum. Engin beltaflokkar. Sami einstaklingur getur ekki skráð sig í fleiri en einn hóp. Æfa þarf 2 form, þar sem þeir sem komast í úrslit eiga að gera aftur.

Freestyle - allur aldur
Í freestyle-keppni verður eina reglan að keppandi/hópur fær 2 mínútur til að klára Poomsae atriði, með tónlist eða ekki. Athugið að með Freestyle er eingöngu átt við Poomsae af einhverjum toga á meðan MuYe er algjörlega frjálst. Sami einstaklingur getur ekki skráð sig í fleiri en einn hóp.

MuYe - 13 ára +
Keppni í sýningu (MuYE) er 5 mínútur á lið og má hópur hvers félags vera eins stór og hver vill, sýningin má vera algjörlega frjáls svo lengi sem atriðið teljist vera fyrst og fremst Taekwondo. Einkunir munu s.s. verða gefnar fyrir Taekwondo-tækni en ekki aðra þætti. Aðrir þættir munu þó hækka einkunina sem slíka ef vel tekst til. Börn geta verið þáttakendur í MuYe hóps síns félags en þó verður meirihluti hópsins að vera 13 ára eða eldri. Sami einstaklingur getur ekki skráð sig í fleiri en einn hóp. Hámarki má hvert félag senda 3 lið.

SHOWBREAK -18 ára +
Keppni í show-break er einföld, 2 mínútur og keppandi má gera hvað sem
hann vill, á eigin ábyrgð og dómnefnd verður að fá að sjá fyrirfram það efni
sem á að brjóta. Aðeins einn keppandi en ekki hópur. 18 ára aldurstakmark.

Einkunin er 40% tækni, 40% efnið sem brotið er og 20% skemmtanagildið. Sérstök auka verðlaun verða fyrir showbreak, 15.000kr.

FLOKKAR
Keppt verður í minior og eldri (13 ára á mótsdag) til verðlauna á Íslandsmótinu í formi. Einnig fer fram barnamót samhliða Íslandsmótinu í sömu keppnisgreinum.

Börn eru 12 ára og yngri á mótsdag. Börnin keppa ekki á formlegu Íslandsmóti þar sem það samræmist ekki reglum ÍSÍ. Árangur þeirra telur því ekki til stiga á Íslandsmóti í formi.

Börnin mega keppa í einstaklings-, para- og hópakeppni í formi sem og í Freestyle poomsae.