Góður árangur á bikarmóti TKÍ
Helgina 21.-22. janúar var haldið bikarmót Taekwondosambands Íslands í Íþróttamiðstöð Breiðholts við Austurberg, mótið var annað í mótaröðinni en alls eru haldin 3 bikarmót yfir árið. Að vanda sendi Keflavík stóran hóp til keppni og stóðu allir keppendur sig með glæsibrag. Á laugardeginum var haldið barnamót, en þar telja ekki stig keppenda í heildarkeppni félaga. Allir keppendur Keflavíkur komu heim með verðlaunapening í einhverjum lit og voru félagi sínu til mikils sóma. Að öðrum ólöstuðum stóðu Svanur Þór Mikaelsson og Bartoz Wiktorowicz sig best af keppendunum á laugardeginum, en þeir unnu gull í bæði formum og bardaga.Á sunnudeginum var svo keppt í hinu eiginlega bikarmóti, en þar verða þátttakendur að vera búnir að ná 13 ára aldri til að fá keppnisrétt. Þar stóðu Keflvíkingar sig best allra félaga en þeir fengu 177 stig í heildarkeppninni en næsta lið á eftir, Selfoss, fékk 68 stig. Af 12 keppendum mótsins átti Keflavík 8 þeirra. Ástrós Brynjarsdóttir var keppandi mótsins í bæði formum og samalögðu, Sæbjörn Rafn Steinarsson í bardaga, Ægir Már Baldvinsson í bæði formum og samalögðu, Joanna Kraciuk í bardaga, Kolbrún Guðjónsdóttir í samanlögðu og Helgi Rafn Guðmundsson í samalögðu. Aðrir keppendur stóðu sig einnig mjög vel og eigum við flottann hóp keppenda sem gefa sig allan í mót fyrir félagið sitt.
Keflavík vann einnig fyrsta bikarmótið og stefnir á það að vinna það þriðja og síðasta líka og hampa þar með titlinum Bikarmeistarar Taekwondosambands Íslands árið 2012. Mikil gróska er í starfi félagsins og er deildin ein öflugasta deild landsins með sinn frábæra yfirþjálfara Helga Rafn Guðmundsson í broddi fylkingar.
Tekið af vf.is
Nánari úrslit má sjá á http://www.tki.is/tki/frettir/tki-bikarmot-ii-2011-2012/