Glæsilegur árangur á Selfossi
TSH mót 2 í bikarmótaröðinni var haldið á Selfossi um helgina. Keflvíkingar mættu með stærsta liðið, eða 44 keppendur. Samtals voru keppendur um 160 og mættu flest félög landsins á mótið.
Árangurinn lét ekki á sér standa; Keflvíkingar náðu 24 verðlaunasætum. Þar af voru 8 gull.
Keppt var báða dagana. Á laugardegi var keppt í bardaga og á sunnudegi í formum og þrautabraut. Okkar bestu og reyndustu keppendur voru margir að koma upp í meistaraflokk og lentu þar á móti þeim bestu á landinu í sínum aldursflokki. Þrátt fyrir það náðu allir þeir keppendur að komast í efstu sæti í sínum flokki. Aron Yngvi Nielsen, núverandi bikarmeistari og taekwondo maður Keflavíkur var í erfiðum flokki en stóð sig mjög vel. Hann náði silfurverðlaunm eftir að hafa tapað fyrir Elvari Oddsyni úr Fjölni í úrslitaviðureigninni, en Elvar er einn efnilegasti taekwondo keppandinn á Íslandi um þessar mundir.
Jón Steinar Brynjarsson, sem var keppandi mótsins á síðasta móti vann einn bardaga en þurfti að gefa þá næstu vegna meiðsla. Hann varð því að láta sér bronsverðlaunin nægja.
Óðinn Már Ingason, sem er einungis 9 ára gamall lenti í erfiðum flokki en stóð sig mjög vel, enda gífurlegt efni í bardaga. Hann vann sér til silfurverðlauna eftir að hafa tapað úrslitabardaganum naumlega á móti Antonio úr Fjölni.
Arnór Freyr Grétarsson lenti einnig í erfiðum flokki, hann vann eina viðureign og lenti þar næst á móti Gísla Gylfasyni úr Aftureldingu, en Gísli er með mikla reynslu í keppni og hefur æft með þeim bestu um langa skeið. Arnór tapaði bardaganum á móti Gísla með aðeins einu stigi sem Gísli skoraði á lokasekúndunum. Arnór vann sér því til bronsverðlauna.
Kristmundur Gíslason stóð sig frábærlega og vann til silfurverðlauna eftir harða barátta við Ólaf úr Fjölni. Hrefna Jónsdóttir vann til verðlauna í sama flokki en hún er einnig mjög efnileg. Guðmundur Jón Pálmason stóð sig frábærlega og vann allar sína bardaga örugglega. Hann vann sinn flokk og eru þá komin 4 mót í röð sem hann vinnur. Þess má geta að Guðmundur var valinn nemandi ársins hjá deildinni á síðasta tímabili.
Karel Bergman Gunnarsson stóð sig frábærlega og kom á óvart þegar hann vann sinn flokk nokkuð örugglega. Þetta er hans langtum besti árangur hingað til.
Joanna Kraciuk vann einnig sinn flokk á sínu fyrsta móti.
Marel Sólimann Arnarsson átti gott mót um helgina og vann sinn flokk í tveimr greinum, bardaga og þrautabraut minnstu mátti muna að hann yrði keppandi mótsins, eða einu stigi.Hann keppti úrslitabardagann við Sverrir Örvar Elefsen, einnig úr Keflavík, en þeir stóðu sig báðir mjög vel. Þeirra flokkur var stór og þurftu þeir að keppa marga bardaga til að komast í úrslitin. Ástrós Brynjarsdóttir vann formkeppnina, en hún er mjög efnileg í þeirri grein. Arnór Freyr Grétarsson og Óðinn Már Ingason unnu þá þrautabrautina ásamt Mareli og unnu Keflvíkingar því þrautabraut í öllum flokkum.
Stórgott mót fyrir Keflavík. Margir efnilegir keppnismenn að koma upp og þeir reyndari voru einnig að standa sig frábærlega í erfiðum flokkum. Það verður spennandi að sjá hvernig næsta mót mun verða en það verður haldið í Reykjanesbæ í lok apríl. Það er búist við að slá aðsóknarmet á það mót.
Verðlaunin eru eftirfarandi:
Bardagi (kyorugi)
1. Marel Sólimann Arnarsson
1. Karel Bergman Gunnarsson
1. Joanna Kraciuk
1. Guðmundur Jón Pálmason
2. Sverrir Örvar Elefsen
2. Aron Yngvi Nielsen
2. Óðinn Már Ingason
2. Alexander Haukur Erlingsson
2. Kristmundur Gíslason
2. Antje Muller
2. Dana Vainsteina
3. Eyþór Ólafsson
3. Hrefna Jónsdóttir
3. Örn Garðarsson
3. Arnór Freyr Grétarsson
3. Jón Steinar Brynjarsson
3. Kristján Lee Kinser
3. Ásmundur Þór Kristmundsson
Form (poomsae)
1. Ástrós Brynjarsdóttir
Þrautabraut
1. Marel Sólimann Arnarsson
1. Óðinn Már Ingason
1. Arnór Freyr Grétarsson
2. Davíð Bjarki Jónsson
3. Sverrir Örvar Elefsen
Keflvíkingarnir í lok móts á laugardegi Margar flottar myndir á http://www.hemmi.is/webgallery/taekwondo/index.html