Fréttir

Taekwondo | 7. mars 2007

Foreldraæfing/foreldrafundur

Taekwondo fyrir foreldra iðkenda

Föstudaginn 9 mars næstkomandi verður sérstök foreldra og fullorðinsæfing í taekwondo. Æfingin verður sniðuð til að henta hverjum sem er og eru til þess ætlaðar að kynna foreldrum taekwondo iðkenda og öðrum fullorðnum fyrir íþróttinni á annan hátt en krakkarnir æfa. Notaðar verða æfingar með líkamanum til að stuðla að bættri heilsu, styrk og liðleika og verður iðkun þeirra algjörlega eftir getu og vilja hvers og eins. Þessi æfing verður óhefðbundin öðrum taekwondo æfingum, en verður farið víða við í ýmsum aðferðum við að styrkja og liðka líkama og sál og má þá nefna teygjur og liðleikaæfingar, meiðslaforvörn, almennar og sérhæfðar styrktaræfingar, huglæg þjálfun, herþjálfun, bardagalista og bardagaíþróttaþjálfun. Þrátt fyrir víðfeðmi verður þessi æfing á léttum nótum og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Allavega annað foreldri hvers barns ætti að láta sjá sig og prófa óhefðbundnar og öðruvísi æfingar sem skila ykkur miklu.
  • Aldurslágmark er 28 ár (eða að eiga barn sem er að æfa)
  • Aldurshámark er EKKERT
  • Afsakanir eru ekki til, aldur, þreyta, meiðsli, allir geta verið með
  • Það er of seint að byrja á lífinu á morgun
  • Engin gerir meira en hann getur, en flestir geta meira en þeir gera

Þessi æfing verður opin öllum foreldrum eða öðrum sem hafa áhuga á að mæta og prófa eitthvað nýtt og spennandi.
Í lok tímans verður opinn umræðutími þar sem fjallað verður um taekwondo og þið getið komið með fyrirspurnir.

Foreldrafundur verður á staðnum eftir tímann og eru sem flestir foreldrar beðnir um að mæta á þann fund, óháð því hvort þeir mæti á æfinguna eða ekki.

Æfingin verður í Íþróttaakademíunni kl. 19:00 –  20:30.
Komið í léttum og þægilegum íþróttafötum (- skó), með vatnsbrúsa og góða skapið.

Helgi Rafn Guðmundsson
helgiflex@gmail.com   

Sími 690-6682

„Það var eftir beltaprófið í apríl 06 að ég ákvað að slá til eftir að hafa horft á flestar æfingarnar með Marel og búið var að kveikja vel í mér. Mætti á mína fyrstu æfingu og hef svo til ekki misst af æfingu síðan. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hvað Marel er fljótur að ná tækninni og orðunum. Æfum við okkur oft saman á kvöldin, og vekur það ekki mikla ánægju á heimilinu þar sem kihap (öskur) er ekki sparað og svo smellirnir í focus púðunum, og spýtu brot, litli gaur er þá stöðugt að leiðbeina þeim gamla og liggjum við saman uppí í rúmi og hlíðum við hvor öðrum yfir úr Tkd bókinni, leiðréttir hann mig stöðugt þegar ég ruglast á poomse eða á tækniorðum.

 Oft á kvöldin þegar hann á að fara að sofa kem ég að honum þar sem hann er að gera æfingar, maga æfingar, armbeygjur, poomse, varnir eða þá er að teikna upp poomse (form). Tkd hefur fært okkur feðgana enn betur saman og að eiga sameiginlegt áhugamál með barni sínu er dásamlegt. Síðan að ég byrjaði að æfa Tkd fer ég sjaldnar í ræktina enda hver æfing 1,5 klst og ekkert slakað á. Tkd hefur styrkt mig meira alhliða, gert mig liðugri og síðan er félagsskapurinn mjög góður. Þjálfararnir einstakir. Ég tala nú ekki um ef að foreldrafélagið verður virkt þá verður þetta enn skilvirkara fyrir börn og foreldra. Ég fullyrði að Tkd er fyrir alla þá sem hafa áhuga á öðruvísi líkamsrækt, hver og einn getur verið á sínum hraða.

Örn Garðarsson , foreldri og taekwondo iðkandi