Evrópumót - Ágúst Kristinn með brons!
Tekið af facebook síðu Helga Rafns yfirþjálfara :
Í dag er einn stærsti dagur sem ég hef upplifað sem þjálfari.
Fyrir nokkru síðan voru Daníel Aagaard-Nilsen Egilsson Daniel Arnar og Ágúst Kristinn Eðvarðsson ásamt þremur öðrum drengjum valdir til að keppa á Evrópumóti ungmenna í taekwondo. Strákarnir sem eru nú ávallt duglegir að æfa fóru í þétt prógram æfinga og þvílíkar bætingar hjá þeim á tímabilinu. Þeir voru líka mjög einbeittir allan tímann og lögðu sig alla fram. Í dag keppti þeir svo á mótinu sem haldið er í Frakklandi.
Það er kæfandi hitabylgja yfir öllu landinu, höllin óloftræst og mikill raki og hiti sem myndast þarna inni. Strákarnir létu það ekki á sig fá og mættu galvaskir til leiks. Það var ákveðið af mótshöldurum að stytta bardagana á mótinu vegna öryggi keppenda þar sem það var nánast ólíft í höllinni líkt og annars staðar á þessu svæði. Daníel Aagard keppti fyrst og barðist við dreng frá Serbíu. Serbía er mjög sterk þjóð í taekwondo og eiga marga elítu taekwondo menn. Þetta er langsterkasta mót sem Daníel hefur keppt á og við erfiðar aðstæður. Hann barðist vel eftir að hann komst í gang og sérstaklega í síðari lotunum. kemur sterkari til leiks næst með meiri reynslu frá stóru móti eins og þessu.
Daníel Arnar keppti næsta bardaga við sterkan franskan strák. Frakkland er með sterkari þjóðum í Evrópu og þar að auka á heimavelli. Þessi drengur hefur keppt á mörgum stórum mótum fyrir Frakkland og ég fann einmitt tvo bardaga með honum. Það hjápaði okkur Daníel að búa til áætlun gegn honum með því að leikgreina hann og sjá hvort við gætum nýtt okkur einhverja veikleika. Við sáum nokkra hluti sem við töldum að Daníel gæti nýtt sér gegn honum og svo fer þannig að strax í byrjun bardagans þá sparkar Daníel Frakkann niður í gólfið með glæsilegu höfuðsparki! Hann heldur áfram að berjast vel en þessi færi og reynslumikli Frakki náði smá saman að vinna upp forskot og sigraði að lokum bardagann. Engu að síður frábær frammistaða og eflaust sú best sem hann hefur sýnt.
Ágúst átti að keppa síðar um daginn þannig að um leið og hann var búinn að fylgjast með vinum sínum keppa þá var hann sendur í kælingu og slökun til að halda orku. Liðið fór á stúfana og fann bílakjallara sem var guðsgjöf í þessum aðstæðum. Þar gat hann slakað á þar til röðin var komin að honum. Fyrsti bardaginn hans var við keppanda frá Lúxemborg. Ágúst var í sérflokki og stjórnaði bardaganum algjörlega frá byrjun og stjórnaði pressunni gjörsamlega. Um leið og hann var búinn var Ágúst settur í vökvun, kælingu og skuggann aftur til að reyna að halda smá orku. Nú minni ég ykkur á að hitinn þarna er gjörsamlega kæfandi!
Næst átti hann að keppa við Finnland, en sá strákur er gamall keppinautur Ágústs og hafa þeir sigrað hvorn annan einu sinni hvor. Við fengum foreldra til að taka upp video af verðandi andstæðingum og þeim var hent beint í tölvuna fyrir nánari leikgreiningu. Þar sáum við Ágúst ýmsa hluti sem hann gæti klárlega nýtt sér gegn Finnanum og fór svo að Ágúst gjörsigraði Finnan sem átti engin svör við því sem Ágúst gerði. Aftur var Ágúst í pressu sætinu og það munaði öllu. Aftur var Ágúst sendur frá og reynt var að hafa hann sem allra minnst í höllinni þar sem loftið var virkilega þungt og hitinn óbærilegur.
Þá fengum við myndband af næsta andstæðing en sá er frá Spáni. Spánn er ein besta taekwondo þjóð heims og voru þau m.a. stigahæsta lið síðustu Ólympíuleika. Enn sáum við hvað gæti virkað gegn honum, en þetta er mjög sterkur keppandi. Ágúst framkvæmdi skipulagið fullkomlega og stjórnaði enn og aftur allri pressunni. Í hlénu á milli lotna var Spánverjinn farinn að hægjast og virtist vera að missa móðinn, það segir ýmislegt um hversu vel Ágúst gat haldið pressu á honum fyrst Spánverjinn var þreyttari og sveittari í þessum hita heldur en Íslendingurinn. Það var enn 0-0 eftir venjulegan leiktíma og þá varið farið gullskors lotu þar sem sá sem skorar fyrst sigrar bardagann. Eftir gullskorið þá var ekki búið að skora enn og þá gilda hvor hafi oftar náð léttri snertingu í brynjuna í gullstigslotunni. Þar var Spánverjinn með einni léttri snertingu meira en Ágúst og var því dæmdur sigurinn eftir bardaga sem gat ekki verið jafnari. Þar með náði Ágúst í undanúrslit á Evrópumóti og fékk bronsverðlaun. Frammistaðan hans á mótinu var ótrúleg. Bardaginn við Spánverjann var t.a.m. einn besti bardagi tæknilega og leikfræðilega sem ég hef séð. Ágúst fékk ekki á sig á mótinu (eitt stig var skráð vegna refsistiga í fyrsta bardaga sem Ágúst fékk fyrir að fara útaf vellinum) og því erfitt að segja að hann hafi tapað neinu.
Þetta eru fyrstu verðlaun sem Íslendingur vinnur á Evrópumóti í taekwondo (bardaga). Margir gera sér ekki grein fyrir hversu sterk svona mót eru, en þarna eru Ólympíufarar framtíðarinnar sem margir hverjir æfa nú þegar eins og atvinnumenn. Ágúst sýndi okkur að maður fær það sem maður vinnur fyrir og að það skiptir máli að vera í sterkum hóp sem hjálpar manni. Það er gífurlegt stolt að vera Íslendingur í taekwondo núna og til hamingju með árangurinn Ágúst og Ísland.