Barna og unglingamót 26. febrúar
Laugardaginn 26. febrúar mun Taekwondo deild Aftureldingar halda opið barna- og unglinga mót í sparring og púmse fyrir öll félög á landinu.
Mótið er haldið í Íþróttahúsinu við Varmá, Mosfellsbæ. Skráning fer fram á mótstað.
Nýja mótsfyrirkomulagið sem tekið var upp á síðasta ári verður endurtekið vegna fjölda áskoranna. Keppendum verður skipt upp í flokka á mótsstað eftir hæð og þyngd og reynt verður að halda fjórum keppendum í hverjum keppnisflokk nema að 8 keppendur passi saman í einn flokk. Þetta er útsláttarkeppni en ef keppandi tapar bardaga þá keppir hann aftur um 3-4 sæti. Miklar umbætur hafa orðið á Bardagaskjánum sem varpar á vegginn öllum upplýsingum um uppröðun bardaga sem og hvaða bardagar eru í gangi á hverju gólfi.
Á mótsstað verða þrjú gólf, tvö fyrir sparring og púmsególf á milli þeirra. Tveir flokkar (8 keppendur) fara saman á Púmsególfið og allir keppa á móti öllum með því að gera tvö púmse og hærri einkunnin gildir. Þar á eftir fara flokkarnir tveir á bardagagólf og kepptir eru 2x1 mínútna bardagar með 15 sekúndur á milli lota. Bardagatréð er klárað þar til úrslit eru ljós og keppendur fá 2-4 bardaga í hvíld á milli.
Barnaflokkur er fyrir keppendur 12. ára og yngri og unglingaflokkur 13-15 ára. Aldur miðast við mótsdag. Allar hlífar eru skylda í öllum flokkum. Gómur er ekki skylda í barnaflokkum og nárahlíf ekki skylda í stelpuflokkum þar sem hún er ekki til á landinu.
Reynt verður að haldast við eftirfarandi flokkaskiptingu eftir mesta megni en Afturelding áskilur sér rétt til að breyta þeim í samráði við þjálfara þeirra félaga sem málið snertir.
1. flokkur: 10.- 8. geup
2. flokkur: 7.- 5. geup
3. flokkur: 4. geup og yfir
Flokkaskipting tekur u.þ.b. 15 mínútur og hefst á 1.flokki klukkan 9:00 og lýkur 9:15 og svo koll af kolli. Ekki verður hægt að taka þátt í mótinu eftir að flokkaskipting hefst og keppendum er ráðlagt að mæta í síðasta lagi 8:45.
Mótið hefst klukkan 9:30 á púmse hjá fyrsta flokki.
Öll félög fá úthlutað sæti í dómgæslu (hornadómari eða púmse) í hlutfalli við fjölda keppenda sem þau senda. Sætisbakið verður merkt þeirra félagi og er yfirþjálfari félagsins ábyrgur fyrir sæti þess. Þannig geta félögin róterað sínum dómurum að vild. Allir dómarar skulu mæta klukkan 9:00 og fá afhendan dómarabol sem þeir eru beðnir að vera í á meðan mótinu stendur svo þeir séu sýnilegir.
Keppnisgjöld eru 1500. krónur og allir keppendur í barnaflokkum fá þáttökupening en unglingar keppa um gull, silfur og brons (3-4. sæti)
Mótstjóri er stjórnarmaður TKÍ, Richard Már Jónsson.