Ástrós og Svanur á EM og Spanish Open
Nú fyrir skemmstu komu tveir keppendur frá taekwondodeild Keflavíkur úr æfinga- og keppnisferð á Spáni. Þau Ástrós Brynjarsdóttir og Svanur Þór Mikaelsson sem eru bæði ríkjandi Íslandsmeistarar og unglingalandsliðsmenn í taekwondo tóku þátt í Evrópumótinu og Spænska opna mótinu í tækni (poomsae). Tækni keppni fer þannig fram að keppendur sýna fyrirfram ákveðna röð bardagahreyfinga, svosem högg, varnir og spörk sem tilheyra taekwondo tækni. Þau eru metin út frá nákvæmni, hraða, liðleika, kraft, takt, ákveðni og framkomu. Kepppendur fá svo einkunn og er raðað í úrslit samkvæmt því. EM og Spænska opna eru stórmót og án efa stærstu tæknimót sem íslenskir keppendur hafa tekið þátt í, en 6 manna keppnislið var þar frá Íslandi.
Evrópumótið fór fram 30 apríl - 2. maí og Spænska opna fór fram 3. maí. Mótin fóru fram á La Nucia á Spáni, sem er stutt frá Benidorm. Á Evrópumótinu voru rúmlega 320 keppendur frá 24 Evrópulöndum. Þetta er fyrsta stórmót Svans og Ástrósar, en þau eru bæði mjög efnileg og hafa æft vel fyrir þessi mót. Þau kepptu bæði á fyrsta keppnisdegi og stóðu sig með prýði. Ástrós endaði í 9. sæti og sigraði nokkrar stórþjóðir og á meðal ríkjandi Norðurlandameistara frá Finnlandi, sem hafið áður sigrað Ástrósu. Ástrós var hársbreidd frá því að komast í úrslit, en til þess þurfti hún að vera í 8. sæti. Þeir sem komast í 8- manna úrslit keppa aðra umferð. Ástrós fékk einkunina 62,7, en sigurvegari flokksins, sem kom frá Serbíu fékk 65,7. Svanur stóð sig einnig vel í sterkum flokki. Hann fékk einkunnina 55,6 á meðan sigurvegari hans flokks endaði í 62,7.
Á öðru degi kepptu Svanur og Ástrós í parakeppninni. Þar gilda sömu reglur og í einstaklingskeppni, nema þá þurfa keppendur að framkvæma tæknina samtímis og í takt. Ástrós og Svanur hafa oft tekið þátt í slíkum keppnum saman og unnu m.a. síðasta Íslandsmót og Skoska opna í slíkri keppni. Þarna fengu þau einkunnina 60,1 og enduðu í 10. sæti.
Írunn Ketilsdóttir landsliðsþjálfari og keppandi úr Ármanni komst í úrslit í sínum flokki og endaði í 7. sæti.
Daginn eftir Evrópumótið fór íslenska liðið á Spænska opna, sem er A- styrkleika mót opið öllum þjóðum í heimi. Keppendur voru 220 frá 18 þjóðum. Íslensku keppendurnir höfðu æft sig vel á og í kringum Evrópumótið, fengið þjálfun og tæknileiðbeiningar frá öðrum þjóðum og fengið góða reynslu fyrir þetta mót. Mikil stemmning var í höllunum, klapplið og söngvar glumdu meðan sumar þjóðir tóku þátt, öllu var sjónvarpað og miklu máli skiptir að halda einbeitningu.
Ástrós var í 16 manna flokk á Spænska opna. Í þetta sinn komst hún áfram í 8-manna úrslit, enda búin að skerpa á tækninni. Hún lagði margar góðar stúlkur og aftur sigraði hún Norðurlandameistarann frá Finnlandi. Ástrós endaði í 7. sæti í heildarúrslitum, en lítill munur var á keppendum í úrlslitunum. Svanur keppti í stórum og sterkum flokki. Hann endaði í 14. sæti en lagði marga sterka keppendur, en þeir voru 21 í flokknum. Munaði hársbreidd á því að hann kæmist í næstu umferð, en 13 sæti hefði dugaði honum til að keppa aðra umferð í undanúrslitum.
Þau kepptu svo einnig í parakeppninni. Þarna voru 11 pör og Svanur og Ástrós komust í 8- manna úrslit. Þar enduðu þau í 4-5 sæti, en voru eingöngu 0,2 stigum frá 3. sæti, sem var Rússland.
Aðrir keppendur Íslands stóðu sig einnig vel. Karl Jóhann Garðarsson og Írunn Ketilsdóttir komust í úrslit í parakeppninni og Írunn komst aftur í úrslit í sínum flokki. Haukur Fannar Möller og Sveinborg Katla Daníelsdóttir frá Þór, Akureyri tóku einnig þátt en tókst ekki að komast áfram í sterkum flokkum.
Þessi ferð var ómetanleg reynsla fyrir þessa ungu keppendur sem eru að stíga fyrstu skrefin á stórmóti. Þau hafa verið sigursæl á Íslandi í langan tíma en stefna nú lengra. Þau hittu heimsmeistara og marga frábæra keppendur og þjálfara frá öðrum löndum og lærðu mikið af þessari ferð sem mun án nokkurs vafa nýtast þeim í framtíðinni. Núna eru eingöngu 2 vikur í Norðurlandamótið sem verður haldið í Finnlandi og forvitnilegt að sjá hvernig Ástrósu, Svan og öðrum Íslendingum mun ganga. Norðurlandamótið verður haldið í Helsinki 25. maí n.k. og munu tæplega 30 Íslendingar taka þátt, þar af 11 Keflvíkingar.