Fréttir

Taekwondo | 24. desember 2011

Árið 2011 Taekwondo Keflavík

Árið 2011 hefur verið viðburðaríkt fyrir taekwondodeild Keflavíkur.

Varmá Open

 Í febrúar var haldið barnamótið Varmá Open þar sem um 200 börn úr flestum félögum landsis tóku þátt. Keflvíkingar mættu með 24 keppendur og unnu til 33 verðlauna í tveimur greinum. Keflavík var með flest stig félaga og var því félag mótsins. Auk þess var Ástrós Brynjarsdóttir úr Keflavík stigahæsti keppandinn á mótinu í samanlögðum árangri.

Íslandsmót í bardaga

Í mars var haldið íslandsmótið í bardaga. Keflvíkingar höfðu unnið þetta mót árið 2010 og höfðu því titil að verja sem og margir einstaklingar í sínum flokkum. Keflvíkingar unnu til 32 verðlauna og vörðu titilinn sinn frá því árið áður með miklum yfirburðum.

Liðamót Ármanns

Í október hélt Ármann lítið mót í formum með liðafyrirkomulagi. Keflvíkingar sendu þrjú lið sem urðu í 1. 2. og 4. sæti í sínum keppnisflokkum.

Íslands- og barnamót TKÍ í formum

Í október hélt taekwondosamband Íslands (TKÍ) Íslands- og barnamót í formum. Keflvíkingar unnu til 42. verðlauna á mótinu. Á Íslandsmótinu urðu Keflvíkingar í 2. sæti í heildarkeppninni en á barnamótinu urðu þeir í 1. sæti. Victoría Ósk Anítudóttir úr Keflavík var með bestan samanlagðan árangur á barnamótinu.   

Bikarmót TKÍ

Í nóvember hélt TKÍ bikarmót í formum og bardaga. Keflvíkingar unnu til hvorki meira né minna en 50 verðlauna og þar á meðal félag mótsins með yfirburðum og 7 af 12  bestu keppendum mótsins samkvæmt mótshöldurum. Það voru Ástrós Brynjarsdóttir, Kolbrún Guðjónsdóttir ( í 2 greinum), Karel Bergmann Gunnarsson, Ægir Már Baldvinsson, Jón Steinar Brynjarsson og Helgi Rafn Guðmundsson. Þess má geta að síðustu 5 ár hefur Keflavík aldrei tapað bikarmóti og að jafnaði eru haldin 3 bikarmót á ári.

Beltapróf

Nokkur beltapróf hafa verið haldin á árinu með góðum árangri. Þjálfarar deildarinnar uppfæra beltakröfurnar eftir þörfum til að koma í veg fyrir úreldar aðferðir við iðkun íþróttarinnar og til að hámarka árangur. Í febrúar var haldið eitt stærsta svartbeltispróf sem haldið hefur verið á Íslandi. Prófið var haldið á Ásbrú þar sem 8 iðkendur og kennarar Keflavíkur þreyttu próf. 6 iðkendur þreyttu próf fyrir 1. gráðu svart belti þeir Jón Axel Jónasson, Óðinn Már Ingason, Jón Steinar Brynjarsson, Ævar Þór Gunnlaugsson, Kristmundur Gíslason og Arnór Freyr Grétarsson. Rut Sigurðardóttir og Helgi Rafn Guðmundsson þreyttu próf fyrir 3. gráðu svart belti. Prófdómari var Paul Voigt, fyrrverandi landsliðsþjálfari Svíþjóðar og Íslands. Allir próftakar stóðust prófið með sóma enda höfðu æft stíft fyrir prófið í langan tíma.

Í desember tóku 5 iðkendur deildarinnar síðasta beltaprófið sitt fyrir litað belti og næst á dagskrá er svarta beltið fyrir vorið 2012. Iðkendur deilarinnar hafa sýnt mikla framför og á næstu árum er mjög líklegt að mikill fjöldi svartbeltinga verði að æfa með félaginu.

Foreldrafélag og stjórn

Hjá taekwondodeildinni er virkt foreldrafélag. Foreldrarnir eru ávallt tilbúnir að hjálpa til og veita iðkendum aðstoð t.d. á mótum, æfingum og beltaprófum. Foreldrafélagið hefur m.a. styrkt iðkendur með niðurgreiðslu á æfingabúðum, gefið iðkendum jólagjafir, prentað út upplýsingabækling fyrir foreldra, verið með kaffi og veitasölu, fjáraflanir og margt fleira. Einnig sér stjórn deildarinnar um rekstur deildarinnar og hefur gert með miklum sóma.

Þjálfarar

Helgi Rafn Guðmundsson er yfirþjálfari deildarinnar. Hann útskrifaðist sem íþróttafræðingur B.Sc. frá Háskólanum í Reykjavík á þessu ári. Lokaverkefnið hans snerist um kennslu og þjálfun taekwondo. Helgi er margfaldur Íslands- og bikarmeistari, æfði lengi með landsliðinu og var m.a. landsliðsfyrirliði.

Rut Sigurðardóttir er einnig íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Hennar lokaverkefni var taekwondo kennsluefni fyrir börn. Rut er margfaldur Íslands- og Norðurlandameistari og einn árangurríkasti keppandi Íslands fyrr og siðar. Rut var lengi að æfa með landsliðinu.

Aðrir þjálfarar á árinu voru Ævar Þór Gunnlaugsson, Kristmundur Gíslason, Jón Steinar Brynjarsson og Arnór Freyr Grétarsson. Allir hafa þeir unnið til fjölda verðlauna sem keppendur, verið í landsliðinu og náð góðum árangri með sína iðkendur, sama hvort um er að ræða í keppni eða öðrum vettvangi í taekwondo.

Mikil metnaður er lagður í þjálfun hjá deildinni og sést það ekki síst að eingöngu eru tveir íþróttafræðingar að þjálfa taekwondo á Íslandi og báðir eru þeir hjá Keflavík. Með fagmennsku, menntun og metnaði er iðkendum skapað umhverfi til að ná árangri.

Landsliðsverkefni

Taekwondosambandið er með landslið í bardaga og formum, en einnig með undirbúningshópa fyrir börn og unglinga til að bæta sig í íþróttinni. Iðkendur frá Keflavík hafa tekið þátt í öllum hópum og staðið sig mjög vel. Miðað við þann sterka grunn sem er starfandi hjá félaginu þá björt framtíð fyrir landslið Íslands í taekwondo.

Taekwondomaður ársins

Árlega er valið taekwondo mann Keflavíkur og Reykjanesbæjar. Það var erfitt val þar sem svo margir komu til greina eftir eitt besta ár í sögu félagsins. En fyrir valinu var Jón Steinar Brynjarsson. Jón Steinar hefur lengi verið einn efnilegasti keppandi Íslands. Á þessu tímabili varði hann Íslandsmeistaratitil sinn í bardaga í 4. sinn í röð. Einnig varð hann Íslandsmeistari með sínu liði í liðakeppni í bardaga, en í ár var keppt í þeirri grein í fyrsta sinn. Jón vann bikarmót taekwondosambandsins í bardaga og var í 2. sæti í formum. Jón var þá valinn besti keppandi unglinga í samanlögðu á því bikarmóti. Jón Steinar var einn 8 iðkenda Keflavíkur sem tóku svartbeltispróf á árinu og stóðst það með miklum sóma. Jón er fastamaður landsliðsins og stefnir á keppni erlendis á næsta ári.  Jón stundar æfingar af miklu kappi, æfir með sínu félagi, landsliðinu og tekur aukaæfingar ásamt lyftingum til að bæta árangur sinn í íþróttinni. Hann er öðrum íþróttamönnum fyrirmynd og á mikið inni í keppnum erlendis.

 

Við erum virkilega stolt af árangri þessa árs sem er að líða og hlökkum til að takast á við verkefni komandi árs.