Fréttabréf Foreldrafélags
Fréttabréf Foreldrafélags
Taekwondo-deildar Keflavíkur fyrir árið 2008
Í byrjun febrúar ákvað foreldrafélagið að láta eitthvað gott af sér leiða með því að selja Taekwondo armbönd til styrktar munaðarlausum börnum í Mexíkó. Auglýstum við á Keflavíkur-síðunni og TKI-síðunni og buðum armböndin til sölu á öllum helstum mótum sem haldin voru í byrjun ársins. Safnað var fyrir kr. 23.500.
Í byrjun mars gáfum við Taekwondodeildinni tölvuskjá sem keyptur var hjá Omnis í Keflavík að verðmæti kr. 25.000 svo hægt væri að hafa skortöflu fyrir mót sem haldin yrðu í Keflavík í framtíðinni. Vonum við að þetta komi sér vel fyrir deildina okkar.
Í miðjan mars hafði Samkaup samband við okkur og bauð okkur að líma heimilisföng á umslög og setja afsl.miða inní og fengum við 50.000 krónur fyrir þá vinnu. Ekki stóð á okkur og auglýstum við strax eftir hjálp hjá iðkendum og foreldrum. Við komum okkur síðan fyrir í K-húsinu einn laugardagsmorgun. Það varð fullt hús af iðkendum, foreldrum og systkynum og myndaðist mikil stemning. Boðið var uppá kaffi, djús og kex og að lokum fengu öll börn páskaegg frá foreldrafélaginu fyrir hjálpina.
Í lok apríl var síðasta TSH-mótið haldið í íþróttahöllinni við Sunnubraut. Foreldrafélagið ákvað að selja mat sér til fjáröflunar. Farið var á stjá til að afla aðfanga, þ.e.s. hráefni fyrir söluna.
Sigurjónsbakarí gaf okkur allt brauð sem notað var í samlokur auk fullt af bakkelsi sem dugði fyrir sölu í 2 daga.
Kaffitár gaf okkur kaffið og lánaði okkur kaffikönnur til að hella uppá.
Kaskó gaf okkur 20% afslátt af öllum þeim vörum sem að við tókum út hjá þeim.
Rut og Helgi (kennarar Taekwondo) gáfu okkur Herbalife súkkulaðistykki auk Herbalife drykki með ýmsum bragðtegundum sem að seldust grimmt.
Auk þess seldum við restina af þeim taekwondo vörum sem að við áttum á lager. Þessa helgi söfnuðum við kr. 142.823.
Annars var þetta vel lukkað mót, bæði erum við með duglegt fólk og kennara sem stóðu að mótinu og einnig urðu Keflvíkingar bikarmeistarar TSH-bikarmótaraðana.
Haustið byrjuðum við á að hafa okkar skemmtilega fjölskylduíþróttadag sem vakti mikla lukku eins og áður. Það voru 120 iðkendur, foreldrar auk systkyna sem að mættu á þennan frábæra dag. Við ákváðum að breyta ekki mikið út af vananum og fengum Rut og Helga til að sjá um skemmtilega leiki, en þau stýrðu þeim með eindæmum vel enda ekki nema von þar sem að iðkendur bera mikla virðingu fyrir þeim. Ekki vantaði keppnisskapið í iðkendur enda núverandi bikarmeistarar og vonandi verður áframhald á því.
Eftir mikla og skemmtilega leiki var seðjað hungrinu með æðislegri súpu og brauði með pestó sem að Örn Garðars hjá Soho sá um en Örn gaf félaginu vinnu sína við matseldina. Allir fengu svo að lokum viðurkenningarskjal fyrir mætinguna og góða skapið sem var talsvert þennan dag.
Foreldrafélagið gaf deildinni 2 rafrænar brynjur frá Adidas að upphæð kr. 90.000 sem keyptar voru fyrir okkur í Þýskalandi. Hugmyndinn er sú að okkar iðkendur hafi tækifæri á að prufa þessa brynjur og æfa sig að sparka rétt í þær en þetta er það sem koma skal í framtíðinni. Það er byrjað að nota svona brynjur á mótum erlendis og hitti svo vel á að þær voru kynntar á Scandinavian Open 2007 sem farið var á með keppnishóp deildarinnar. Þannig að við fengum að sjá notagildi þeirra á því móti. Það á einnig að fara að nota þær hér á landi en einungis er eitt annað félag hér á landi sem að á svona brynjur og voru þær notaðar núna á fyrsta TSH móti sem haldið var á Akureyri. Brynjurnar voru afhentar formlega á fjölskylduíþróttadegi.
Í desember mættum við svo á síðustu æfinguna þetta árið og gáfum öllum iðkendum nammi poka frá Góu með ósk um gleðileg jól. Kennararnir okkar Rut og Helgi eru hálfgerðir íþróttaálfar og borða ekki nammi, Og voru ekkert sérlega spennt fyrir því að við værum að deila svona óhollustu í börnin okkar. Þannig að þau fengu loforð frá öllum þeim sem áttu að þreyta beltabróf 20. desember að bíða með nammiátið fram yfir próf.
Hins vegar færðum við þeim ekki nammi heldur jólagjöf frá öllum iðkendum Taekwondo. Það var nátturlegt blóma te með sérstakri könnu til að hella uppá, með kveðju um gleðileg jól og allan þann dugnað síðasta ár.
Að lokum þökkum við Samkaup, Kaskó, Sigurjónsbakarí, Kaffitári og Erni Garðars fyrir styrkina á liðnu ári. Við þökkum stjórninni og síðast en ekki síst Rut og Helga fyrir að alltaf sé hægt að stóla á þau þegar við viljum gera eitthvað skemmtilegt. Einnig þökkum við ykkur iðkendur góðir fyrir gott ár og skemmtileg kynni. Þökkum fyrir alla þá hjálp sem að svo mörg ykkar hafa boðið fram. Margar hendur fá meira áorkað en fáar hendur. Með von um áframhaldandi hjálp.
Með kærri kveðju,
Foreldrafélag Taekwondodeildar Keflavíkur.
Matthildur Ósk Emilsdóttir
Dýrleif Rúnarsdóttir
Esther Marít Arnbjörnsdóttir
Aníta Dögg Stefánsdóttir
Kolbrún Guðjónsdóttir